Umsagnir

Við Löginn. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Hér birtast umsagnir þeirra sem ákveðið hafa að nýta sér Skógarkolefni og ráðast í verkefni sem geta af sér vottaðar Skógarkolefniseiningar. Einnig skal vísað til framsetningar verkefna á vef Loftslagsskrár.

Verkefni í umsjón Yggdrasils Carbon

Álfabrekka í Grímsnesi

Anna María Guðmundsdóttir og Ásmundur Skeggjason eignuðust fyrir nokkrum árum litla jörð í Grímsnesi og hafa stunduð skógrækt þar frá árinu 2008.

„Þar kviknaði áhugi okkar á skógrækt. Við fórum á fund með Skógræktinni og fengum vingjarnlegt viðmót og góðar upplýsingar um Skógarkolefnisverkefni hjá Skógræktinni, sóttum hjá þeim námskeið og hrifumst með og ekki síður af því frábæra fólki sem þar starfar. Úr varð að við keyptum meira land til þess að gróðursetja í með áherslu á nýskógrækt til kolefnisbindingar. Þetta er gert í samræmi við ráðgjöf Skógræktarinnar. Við höfum trú á því að framtíð sé í skógrækt á Íslandi. Í fyrra gróðursettum við 400 þúsund tré og stefnum á að gróðursetja 600 þúsund tré í viðbót eða samtals um milljón trjáa á næstu árum. Þetta verkefni okkar mun vonandi binda um 220.000 tonn af kolefni á næstu 50 árum. Einnig munu verða til mikil verðmæti af timbri í framtíðinni úr skóginum.“

„Við höfum líka átt gott samstarf við Grímsness- og Grafningshrepp sem sér tækifæri í aukinni skógrækt á því landi sem við erum með. Skógur styður við vatnsvernd og margt fleira sem er líka jákvætt fyrir umhverfið. Mikið er af slóðum í landinu sem er skemmtilegt að fara um og ekki síður þegar trén fara af vaxa upp, algjört ævintýri fyrir stóra sem smáa. Einnig bætir þetta líf fugla á svæðinu og sjáum við það í skóginum í eldra landinu; þar iðar allt af fuglalífi.

„Okkur finnst gott að geta haft jákvæð áhrif á umhverfið okkar í framtíðinni með því sem við gerum í dag, til dæmis með því að gróðursetja tré.“

Anna María Guðmundsdóttir og Ásmundur Skeggjason