Skógarkolefni er valkvætt kröfusett sem stuðlar að samræmi í kolefnisverkefnum með nýskógrækt og gefur viðskiptavinum skýran og gagnsæjan valkost.
Skógarkolefni varð til að frumkvæði Skógræktarinnar og þróun þess var í höndum sérfræðinga stofnunarinnar í samvinnu við ýmsa aðila. Þar ber að nefna sérstaklega vottunarfyrirtækið iCert, Loftslagsskrá Íslands ICR og Staðlaráð.
Skógarkolefni er ekki til fyrir Skógræktina heldur er þetta kröfusett búið til að frumkvæði Skógræktarinnar, sem fyrr segir, í takti við það lögbundna hlutverk stofnunarinnar að þjóna skógum og skógrækt á Íslandi. Skógarkolefni er ætlað öllum sem velja að ráðast á ábyrgan hátt í nýskógræktarverkefni á Íslandi með því meginmarkmiði að binda til framtíðar kolefni í íslenskum skógum og búa til vottaðar kolefniseiningar með öllum þeim viðbótarávinningi sem í nýskógrækt felst. Með viðbótarávinningi er átt við atriði eins og landbætur, jarðvegsvernd, endurreisn vistkerfa, skjól og margt fleira. Þá má enn fremur minna á að hagræn áhrif skóga eru ótvíræð. Skógar bæta búsetuskilyrði ásamt því að auka ýmsa möguleika til þróunar samfélagsins og ekki síst að byggja upp sjálfbæra náttúrlega auðlind til framtíðar. Nýskógrækt ásamt útbreiðslu náttúrlegs skóglendis styður auk þess við ýmis alþjóðleg markmið, m.a. um aukna skógarþekju, varnir gegn hnignun vistkerfa og eyðimerkurmyndun, eflingu jarðvegsauðlindarinnar, ýmis loftslagsmarkmið, markmið um líffjölbreytni og fleira og fleira.
Skógarkolefni tengir saman nýskógrækt á Íslandi og valkvæðan kolefnismarkað. Sá markaður stækkar nú ört í takti við vaxandi loftslagsvá og aukna þörf fyrirtækja, stofnana og annarra lögaðila fyrir leiðir til ábyrgra aðgerða í loftslagsmálum. Til að aðgerðir séu ábyrgar og geti farið fram í opnu og gegnsæju ferli er þörf á regluverki sem lýtur alþjóðlegum kröfum um bestu starfshætti. Skógarkolefni er slíkt regluverk, kröfusett sem uppfyllir settar kröfur.
Fyrirmynd Skógarkolefnis var breska kröfusettið UK Woodland Carbon Code og fyrsta útgáfa Skógarkolefnis sem kom út í árslok 2019 var að mestu leyti þýðing og staðfærsla á þessu breska kröfusetti. Vorið 2023 kom út útgáfa 2,0 af Skógarkolefni. Skógarkolefni er í öllum meginatriðum hið sama en hefur verið þróað áfram í samræmi við þróun íslensks laga- og regluumhverfis og tilkomu tækniforskriftarinnar ÍST TS 92:2022 Kolefnisjöfnun: Kröfur með leiðbeiningum (Carbon offsetting: Specification with guidance) sem er að finna á vef Staðlaráðs Íslands. Eðli slíkra krafna er að vera í sífelldri þróun með stöðugum endurbótum í átt að auknum gæðum og í takti við þróun samfélags og umhverfis.
Nánari upplýsingar er að finna á yfirlitssíðum þessa vefs undir flipanum Inngangur. Kröfusettið sjálft er að finna undir flipanum Kröfur og leiðsögn.