Sannprófun – reglubundið mat á kolefnisbindingu

Hvað er sannprófun?

Sannprófun felur í sér reglubundið mat á verkefni samkvæmt kröfum Skógarkolefnis af hálfu vottunarstofu, aðila sem hlotið hefur þar til bæra faggildingu. Við sannprófun er lagt mat á þá kolefnisbindingu sem raunverulega hefur átt sér stað, sem og áframhaldandi umhirðu skógarins samkvæmt viðmiðum og vísum um sjálfbæra skógrækt.1 Við sannprófun gengur vottunarstofan úr skugga um að yfirlýsingar um áætlaða eða raunverulega kolefnisbindingu séu efnislega réttar:

  • Á 5. ári, með takmörkuðum áreiðanleika
  • Frá og með 15. ári með fullnægjandi vissu

Hvenær skal sannprófa og hversu langan tíma getur það tekið?

Dagsetningu næstu sannprófunar skal tilgreina í nýjustu staðfestingar- eða sannprófunaryfirlýsingu verkefnisins. Fyrstu sannprófun skal lokið 5 árum eftir stofndag verkefnis og síðan á a.m.k. 10 ára fresti nema sjálfsmat sé framkvæmt þess í stað. Dagsetningar sannprófana tengjast lokadagsetningum á kolefniseiningum í bið sem skráðar eru við staðfestingu verkefnisins.

Mælt er með því að sannprófunarferlinu sé ýtt af stað 12 mánuðum áður en sannprófun er áformuð. Þegar verkefniseigandi/-stjóri hefur yfirfarið nauðsynleg gögn og lagt þau fram geta liðið 6 mánuðir frá því að skrifað er undir samning við vottunarstofu þar til kolefniseiningum í bið er breytt í fullgildar kolefniseiningar á reikningi verkefnisins í Loftslagsskrá.

Helstu ráð til að sannprófun gangi hnökralaust fyrir sig:

  • Hafa samband við vottunarstofu með eins miklum fyrirvara og unnt er
  • Ganga úr skugga um að skjöl séu fullnægjandi og nákvæm
  • Ganga úr skugga um að öllum nauðsynlegum gögnum úr vettvangsúttekt hafi verið skilað (ásamt öðrum skjölum til stuðnings, hafi orðið breytingar á verkefninu)
  • Bregðast fljótt við beiðnum um frekari upplýsingar, skýringar eða aðgerðir til úrbóta

Hægt er að sækja um frest á sannprófun ef gildar aðstæður koma upp – hafið samband við skrifstofu Skógarkolefnis.

Sannprófun á verkefnahópi

Verkefnahópar eru helst myndaðir áður en til sannprófunar kemur, en einnig er hægt að mynda hóp vegna sannprófunarinnar.

  • Ef hópur er stofnaður vegna sannprófunar skulu allir stofndagar verkefna innan hópsins vera innan 2 ára tímabils (þetta þýðir líka að sannprófanir verkefna sem tilheyra hópnum þurfa að fara fram innan 2 ára tímabils)
  • Fyrir hóp er þess krafist að skipaður sé hópstjóri og gerður hópsamningur (Sjá 2.1 Skuldbindingar landeigenda og verkefnastjóra)
  • Þegar verkefni hafa myndað með sér hóp skal sami hópurinn standa að öllum sannprófunum framvegis

Hver getur sannprófað verkefni

Að svo stöddu býður aðeins ein vottunarstofa sannprófun skv. Skógarkolefni. Bætist fleiri við verða þær tilgreindar hér.

iCert
Borgartúni 30
105 Reykjavík
Sími: +354 565 9001
iCert@iCert.is

Hvað kostar sannprófun?

Kostnaður við sannprófun er áætlaður á bilinu 400.000 kr. til 600.000 kr. fyrir hverja úttekt, auk kostnaðar vegna ferða og uppihalds við vettvangsúttekt. Mælt er með því að óskað sé eftir tilboði frá vottunarstofum.

Hvernig er ferlið?

1. skref: Undirbúningur og framvísun skjala

Hafið samband við vottunarstofu til að hefja sannprófunarferlið, helst 12 mánuðum fyrir áætlaða sannprófun. Mælt er með því að hefja reglubundna vöktun á svæðinu á sama tíma, hafi það ekki verið gert.

Mælt er með því að vöktunaráætlun sé borin undir vottunarstofu áður en vöktun hefst. Sjá 2.5 Vöktun.

Undirbúið neðangreind skjöl sem vísa til frekari leiðbeininga í Skógarkolefni. Gangið úr skugga um að notuð séu rétt sniðmát skjala og að send sé útgáfa 2.0 af framvinduskýrslu verkefnis til staðfestingar samkvæmt útgáfu 2.0 af Skógarkolefni. Samþykkið og undirritið samning við vottunarstofu. Að lágmarki er krafist eftirfarandi skjala (sjá Skjalasniðmát og eyðublöð) – önnur fylgigögn geta einnig verið nauðsynleg (sjá nánari upplýsingar  í Verkefnislýsingu – PDD):

  • Framvinduskýrsla verkefnis (PPR)
  • Vöktunarskýrsla fyrir hvern skógarreit sem tilgreindur er í verkefninu
  • Myndir af svæðinu í heild og af hverjum úttektarstað
  • Kort sem sýnir staðsetningu verkefnisins og hnit
  • Upplýsingar um landeiganda, leigjanda og umboðsmann (ef breytingar hafa orðið þar á frá síðasta mati)
  • Yfirlýsing landeiganda/leigjanda um skuldbindingu (ef breytingar hafa orðið á þeim)

2. skref: Úttekt verkefnis

Vottunarstofa tekur út verkefnið með tilliti til krafna Skógarkolefnis. Vottunarstofa heimsækir ávallt nýskógræktarsvæðið við sannprófun á 5. ári en mögulega er hægt að nota fjarkönnun við síðari sannprófanir, og ekki talin þörf á heimsókn við hverja sannprófun. Minni líkur eru á að vöktun/mælingar óháðs þriðja aðila útheimti vettvangsheimsókn.

Mögulega verður óskað frekari gagna eða tiltekinna úrbóta í samræmi við ábendingar sem kunna að koma fram í úttektinni. Vottunarstofa veitir að jafnaði eins mánaðar frest vegna ábendinga sem hægt er að bregðast fljótt við (t.d. girðingarviðgerðir), en allt að eins árs frest til úrbóta sem líklegt er að taki lengri tíma (t.d. íbætur). Úrbóta verður krafist ef gróðursetningar misfarast eða vöxtur trjáa og kolefnisbinding reynist ekki í samræmi við spár. Sannindamerki um að rétt hafi verið brugðist við gætu t.d. verið bókhaldsupplýsingar eða ljósmyndir. Frekari vettvangsheimsókna er yfirleitt ekki þörf.

Í sumum tilvikum, þar sem ekki hefur verið bætt nægilega fljótt úr frávikum, er hægt að sannprófa verkefnið „með fyrirvara um að aðgerðum til úrbóta verði lokið“, að því tilskildu að úrbótaáætlun sé lögð fram. Ef úrbætur fara ekki fram og engin úrbótaáætlun er gerð verður verkefnið annað hvort sannprófað með rauðri stöðu eða fær ekki sannprófun, allt eftir því hversu alvarlegar afleiðingarnar kunna að verða á ávinning verkefnisins.

  • Ef þéttleiki gróðursetninga á 5. ári er að minnsta kosti 2.000 lífvænlegar plöntur á hektara og lítil hætta er á beitarskemmdum, verður næsta sannprófun á 15. ári eins og gert er ráð fyrir í vöktunaráætlun
  • Ef hætta er á beitarskemmdum eða vafi á lífslíkum og heilbrigði ungplantna á 5. ári getur vottunarstofa krafist:
    • frekari aðgerða til að stuðla að betri árangri s.s. friðunar fyrir beit búpenings, áburðargjafar og íbóta
    • viðbótarsannprófunar á 10. ári til að sannreyna viðunandi framvindu
  • Ef verkefnið er enn ekki farið að binda kolefni eins og gert var ráð fyrir í spá, þarf að endurskoða kolefnisspá fyrir komandi tímabil

3. skref: Rýni verkefnis

Skrifstofa Skógarkolefnis yfirfer gögn um verkefnið með tilliti til samræmis og nákvæmni þeirra.

Að lokinni sannprófun gefur vottunarstofan út sannprófunaryfirlýsingu sem gildir í 10 ár (nema í undantekningartilvikum). Sannprófunaryfirlýsingunni fylgir græn, gul eða rauð einkunn fyrir verkefnið.

Grænn: Verkefnið uppskar á síðasta tímabili allar væntar kolefniseiningar og enginn vafi er á möguleikum verkefnisins til að skila af sér einingum í framtíðinni.

Gulur: Verkefnið uppskar á síðasta tímabili allar væntar kolefniseiningar en er sannprófað með fyrirvara um að ráðist hafi verið í nauðsynlegar úrbætur. Að því gefnu að fyrirliggjandi úrbótaáætlun verði fylgt er fyrirsjáanlegt að verkefnið geti af sér einingar framvegis.

Rauður: Verkefnið uppskar ekki allar væntar kolefniseiningar á síðasta tímabili og vafi leikur á möguleikum þess til að geta af sér fullnægjandi fjölda eininga í framtíðinni.

Ef verkefnið fær græna einkunn frá og með 15. ári:

  • Verkefnið hefur bundið meira kolefni en spáð var og allar kolefniseiningar umfram spána verða skráðar sem fullgildar kolefniseiningar

Ef verkefnið f fær rauða einkunn á 5. ári:

  • Allar kolefniseiningar í bið á fyrsta tímabili verða merktar 'ekki til ráðstöfunar'
  • Vottunarstofan fer fram á næstu sannprófun á 10. ári en ekki á 15. ári
  • Endurmeta verður kolefnisspá verkefnisins og uppfæra á 10. eða 15. ári, þegar betri reynsla er komin á framvindu verkefnisins. Öll frávik til minnkunar frá áætlaðri kolefnisbindingu á komandi matstímabilum leiða til þess að kolefniseiningar í bið verða merktar 'ekki til ráðstöfunar'.

Ef verkefnið fær rauða einkunn frá og með 15. ári:

  • Ef niðurstöður úttektar sýna að minna kolefni er bundið á staðnum en spáð var, verða allar óafhentar kolefniseiningar í bið merktar 'ekki til ráðstöfunar'.
  • Næsta sannprófun er áætluð eftir 10 ár
  • Verkefnið verður að endurmeta kolefnisspá sína og uppfæra. Öll frávik til minnkunar frá áætlaðri kolefnisbindingu á komandi matstímabilum leiða til þess að kolefniseiningar í bið verða merktar 'ekki til ráðstöfunar'.

Ef litlar eða engar líkur eru á verkefnið taki við sér og skili áætlaðri kolefnisbindingu á komandi matstímabilum verður verkefnið ekki sannprófað.

4. skref: Uppfærsla verkefnisins í Loftslagsskrá og kolefniseiningum í bið breytt í fullgildar kolefniseiningar

Til að uppfæra stöðu verkefnis og kolefniseininga í Loftslagsskrá skal:

  • Með innskráningu á vef Loftslagsskrár útbúa 'útgáfu' viðkomandi fjölda Skógarkolefniseininga fyrir árganginn/tímabilið sem er til skoðunar
  • Vottunarstofa verkefnisins hleður svo upp endanlegum skjölum og sannprófunaryfirlýsingu á Loftslagsskrána
  • Loftslagsskrá innheimtir sannprófunargjald hjá verkefninu, þ.m.t. gjald fyrir að breyta kolefniseiningum í bið í fullgildar kolefniseiningar ásamt því að gefa út allar kolefniseiningar sem hafa orðið til umfram áætlun. Að gjöldum greiddum breytist skráning kolefniseininganna á viðkomandi reikningi.

Allar kolefniseiningar í bið sem ekki eru fullgildar verða merktar 'ekki afhentar'. Ef fleiri kolefniseiningar hafa bundist í verkefninu en þær sem hafa verið útgefnar í bið fær verkefnið umframeiningar skráðar sem fullgildar.


1. Hreinn Óskarsson, 2019. Sjálfbær skógrækt – viðmið og vísar. Skógræktin, 18 bls.