Hugtök

Hér fara á eftir ýmis hugtök sem fram koma í Skógarkolefni. Ensk hugtök eru höfð innan sviga svo auðveldara sé að grafast nánar fyrir um þau í leit á vefnum og skoða þau í samhengi í erlendum textum, svo sem í hinu breska UK Woodland Carbon Code.

Afskrá/afskráning (Retire/Retiring)

Færsla á Skógarkolefniseiningum í Loftslagsskrá (International Carbon Registry (ICR)) yfir á afskráningarreikning sem öllum er aðgengilegur. Þetta er gert til að sýna að viðkomandi einingar hafi verið teknar úr umferð, oftast til kolefnisjöfnunar í grænu bókhaldi, og þær megi ekki nota meir.

Felling og endurnýjun (Felling and Regeneration)

Þegar tré eru felld í lok vaxtarlotu og rými skapast fyrir vöxt næstu kynslóðar skógarins. Allmargar skógfræðilegar aðferðir er hægt að nota og eiga þær misjafnlega við eftir trjátegundum, staðháttum og markmiðum.

Framvinduskýrsla (Project Progress Report)

Skýrsla sem landeigandi/verkefnastjóri ber ábyrgð á að sé skilað inn til staðfestingar svo sýnt sé fram á að verkefnið standist áfram þær kröfur sem Skógarkolefni gerir.

Sjá:

Gróðurhúsalofttegundir (Greenhouse Gases)

Þær lofttegundir sem valda hlýnun andrúmsloftsins og þar með öðrum loftslagsbreytingum. Kyoto-bókunin tekur á sex þessara lofttegunda,  koltvísýringi (CO2), vetnisflúorkolefni (HFC), metani eða mýragasi (CH4), köfnunarefnisoxíði eða nituroxíði (N2O), perflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríði (SF6). Þessar lofttegundir valda gróðurhúsaáhrifum.

Sjá:

Grunnstaða kolefnis (Baseline)

Staða kolefnisbúskapar á viðkomandi svæði í upphafi verkefnis. Þessa stöðu má nota sem viðmið til að reikna út kolefnisávinning aðgerða meðan á verkefninu stendur.

Hindrun (Barrier)

Hver sú hindrun sem verða kann á veginum að settu marki en yfirstíga má með aðgerð eða sérstöku verkefni.

Kolefni (Carbon)

Kolefni er eitt algengasta frumefnið á jörðinni með stætistöluna 6 í lotukerfinu. Það er málmleysingi og má finna á hreinu eða nánast hreinu formi í demöntum og grafíti. Algengara er það þó bundið í sameindir með öðrum efnum í margvíslegum efnasamböndum. Kolefnissameindir eru til dæmis helsta byggingarefni lífvera, til dæmis okkar mannanna, en þar með að sjálfsögðu allra dýra, plantna, trjáa og svo framvegis. Jarðvegur (mold) er líka að miklu leyti kolefni enda byggist hann upp af leifum lífvera. Þá eru helstu gróðurhúsalofttegundir eins og koltvísýringur (CO2) og metan (CH4) einnig kolefnissameindir. Svokölluð vetniskolefni, sameindir vetnis og kolefnis, eru líka það sem geymir orkuna í öllu jarðefnaeldsneyti, kolum, olíu og jarðgasi. Mikilvægt er að gera greinarmun á frumefninu kolefni (C) og kolefnissameindinni  koltvísýringi (CO2) í umræðunni um loftslagsmál. Tré og aðrar ljóstillífandi lífverur aðskilja kolefnið og súrefnið í þessari sameind við ljóstillífunina. Kolefnið (C) binst í vefjum (t.d. viði trjáa) en súrefnið (O2) losnar aftur út í andrúmsloftið.

Sjá:

Kolefnisbinding (Carbon Sequestration)

Talað er um kolefnisbindingu þegar koltvísýringur er tekinn beint úr andrúmsloftinu með því að breyta landnotkun, rækta nýjan skóg, endurheimta skóglendi eða með aðgerðum sem auka kolefni í jarðvegi og jarðlögum.

Kolefnisforði (Carbon Pool)

Það magn kolefnis sem til staðar er í tilteknu kerfi eða á tilteknum stað, til dæmis í andrúmsloftinu, trjám, öðrum gróðri, sópi, jarðvegi o.m.fl.

Kolefnisjöfnun (Carbon Offsetting)

Leið til að vega upp á móti losun gróðurhúsalofttegunda með því að koma í veg fyrir samsvarandi magn losunar annars staðar eða með bindingu. Til að byrja með átti þetta einkum við um viðskipti undir hatti Kyoto-bókunarinnar sem fólust í því að sá sem losaði gæti keypt losunarheimildir af einhverjum sem tekist hefði að draga úr losun sinni. Með þróun kolefnismarkaða verður æ fleirum fært að nota sannprófaðar og vottaðar einingar á móti losun, annað hvort einingar sem orðið hafa til í eigin verkefnum eða einingar sem keyptar hafa verið af öðrum. Ekki ætti að tala um kolefnisjöfnun nema að baki liggi gegnsætt, vottað ferli eftir alþjóðlega viðurkenndum kröfusettum og stöðlum. Ekki ætti heldur að tala um kolefnisjöfnun nema frumforsendan sé að draga úr losun sinni eftir megni og aðgerðir til kolefnisjöfnunar sé eingöngu ráðist í til að vega upp á móti óhjákvæmilegri losun. Alltaf er gert ráð fyrir að áfram verði haldið að draga úr losun. Raunar hvetja útgjöld vegna kolefniseininga til þess að fyrirtæki dragi úr losun enda minnkar þörfin fyrir þessi útgjöld eftir því sem losunin minnkar.
Minnkuð losun = minnkuð útgjöld vegna kolefniseininga.

Kolefnisleki (Leakage)

Losun koltvísýrings sem tilheyrir ekki bókhaldi viðkomandi verkefnis en verður þó til af völdum þess. Dæmi um þetta getur verið landbúnaðarstarfsemi sem færð er frá einum stað til annars og veldur þar skógareyðingu eða þyngri nytjum á skóglausu landi.

Kolefnisspá (Carbon Prediction)

Þekking á kolefnisbindingu í nýskógrækt á Íslandi er byggð á margra áratuga reynslu og nákvæmum mælingum þúsunda skógarreita um allt land. Þessi þekking er undirstaða spálíkans um kolefnisbindingu skóga. Nánari upplýsingar um notkun kolefnisbindingarspár er í kröfusetti Skógarkolefnis.

Kolefnistap (Reversal)

Þegar nettókolefnisávinningur tiltekins verkefnis er neikvæður á tilteknu tímabili.

Kolefnisyfirlit (Carbon Statement)

Segir til um hversu mikið kolefni tiltekið verkefni muni binda eða hversu mikið hafi þegar verið bundið fyrir tilstilli þess. Kolefnisyfirlit er gert opinbert við vottun.

Koltvísýringur (CO2) (Carbon Dioxide)

Náttúrleg lofttegund sem einnig verður til sem aukaafurð þegar jarðefnaeldsneyti eða lífmassa er brennt, við landnotkun og í iðnaðarferlum. Koltvísýringur er sú gróðurhúsalofttegund sem mest losnar út í andrúmsloftið af mannavöldum og hefur áhrif á loftslag á jörðinni.

Kröfusett (Carbon Code)

Viðmið og reglur sem unnar eru samkvæmt viðurkenndum venjum um góða starfshætti og ætlaðar eru til notkunar við undirbúning, skipulagningu og framkvæmd vottunarhæfra kolefnisverkefna á valkvæða markaðnum.

Landeigandi/verkefnastjóri (Project Developer)

Einstaklingur eða fyrirtæki/stofnun sem fylgir verkefni eða verkefnahópi gegnum staðfestingar- og vottunarferlið.

Langtímameðaltal kolefnisforða (Long-term Average Carbon Stock)

Meðaltal kolefnisforða í skóglendi reiknað út frá nokkrum vaxtarlotum, þ.e. að meðteknum vexti, nýtingu og endurnýjun skógar í nokkur skipti. Í verkefnum þar sem ekki fer fram felling og endurnýjun er langtímameðaltalið talið nema að minnsta kosti áætlaðri meðalbindingu yfir 100 ár. Þar sem ætlunin er að fella og endurnýja skóginn er langtímameðaltalið reiknað út frá nokkrum vaxtarlotum af tiltekinni lengd þar sem kolefnisforðinn á hverjum tíma er allt frá núlli í upphafi lotu upp í hámark við lok lotu þegar kemur að fellingu og endurnýjun.

Loftslagsbreytingar (Climate Change)

Breyting eða breytingar á loftslagi sem má beint eða óbeint rekja til mannlegra athafna (UNFCCC 1. grein).

Loftslagsskrá Íslands International Carbon Registry (ICR)

Opinber skrá um staðsetningu verkefna, áætlaða og mælda kolefnisbindingu ásamt upplýsingum um eigendur Skógarkolefniseininga og afskráningu slíkra eininga.

Sjá:

Lokadagur verkefnis (Project End Date)

Síðasti dagurinn sem gerð er krafa um kolefnisbindingu til skráningar í bókhald tiltekins verkefnis.

Lokadagur verkefnis = stofndagur verkefnis + verkefnistími.

Ef stofndagur er 1. maí 2023 og verkefnistími 50 ár er lokadagur 31. apríl 2073.

Mat á umhverfisáhrifum (Environmental Impact Assessment)

Verkefni geta verið háð lögformlegu mati á umhverfisáhrifum, einkum ef áætlað skógræktarsvæði er 200 hektarar eða stærra. Ef yfirvöld telja að fyrirhuguð verkefni geti haft veruleg áhrif á umhverfið verður viðkomandi að afla tilskilinna leyfa og leggja fram skýrslu um mat á umhverfisáhrifum.

Mótvægisaðgerð (Compensatory Planting)

Nýtt skóglendi ræktað til að bæta upp fyrir skóglendi sem tapast hefur annars staðar.

Nýskógrækt (Woodland Creation)

Markvissar aðgerðir manna til að breyta skóglausu landi í skóglendi. Viðkomandi land þarf að hafa verið skóglaust í að minnsta kosti 25 ár til að tala megi um nýskógrækt.

Parísarsamkomulagið (Paris Agreement)

Samþykkt gerð innan Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem öðlaðist gildi 2016. Hún fæst við útblástur gróðurhúsalofttegunda frá og með árinu 2020. Þetta er alþjóðlegur sáttmáli og tók við af Kyoto-bókuninni sem rann sitt skeið árið 2020. Hverju ríki er treyst til að setja sér markmið í loftslagsmálum, gera áætlanir og skila reglulega skýrslum um aðgerðir sínar gegn loftslagsbreytingum.

Ræktunaráætlun (Project Design Document)

Skjal sem landeigandi sér til að verði unnið svo staðfesta megi verkefnið. Í áætluninni er m.a. lýst hvernig nýtt verkefni uppfyllir þær kröfur sem Skógarkolefni gerir.

Sjá:


Sannprófun
(Verification)

Þegar þriðji aðili (vottunarstofa) gengur úr skugga um ástand verkefnis og kolefnisbindingu þess.

Sjá:

Skógareyðing (Deforestation)

er kallað þegar skóglendi er eytt til langs tíma eða varanlega, svo sem þegar skóglendi er af mannavöldum breytt til annarrar landnotkunar eða ef skógarþekja er til frambúðar minnkuð niður fyrir þau mörk sem teljast vera skógur, 10% þekja á Íslandi.

Skógarkolefni (Forest Carbon Code)

Kröfusett í umsjón Skógræktarinnar sem fjallar um bindingu kolefnis með nýskógrækt og hvernig sýsla skuli með Skógarkolefniseiningar á Íslandi, stofna til þeirra, staðfesta, votta og afskrá. Skógarkolefni sér til þess að rétt sé staðið að ræktunaráætlunum, áætlun bindingar, gerð úttekta og að þar til bærir aðilar staðfesti og votti ferlið.

Skógarkolefniseining (Forest Carbon Unit)

Skógarkolefniseining samsvarar einu tonni af koltvísýringi sem bundið er í skógi. Þegar verkefni er tekið út og kolefnisbinding mæld er magnið skráð sem „Skógarkolefniseiningar“ í Loftslagsskrá (International Carbon Registry (ICR)). Þessar einingar má þar með líta á sem trygga inneign kolefnis sem megi sýsla með og að lokum afskrá þegar þær eru færðar á móti losun í kolefnisbókhaldi fyrirtækis.

Skógarkolefniseining í bið (Pending Issuance Unit)

Tilgangur þessara eininga er að setja niður magn líklegrar bindingar á viðkomandi svæði. Útgefnar einingar í bið gagnast við að halda utan um kaup eða sölu fyrir fram. Þær er hins vegar ekki hægt að afskrá á móti losun enda hefur bindingin á bak við þær ekki raungerst og verið staðfest og sannprófuð.

Skógur/skóglendi (Forest/Woodland)

Land, a.m.k. 0,5 ha að flatarmáli og minnst 20 m breitt, þar sem ríkjandi trjágróður nær a.m.k. tveggja metra hæð fullvaxinn og er með minnst 10% krónuþekju.

Skráningardagur verkefnis (Project Registration Date)

Dagurinn þegar verkefni er skráð í Loftslagsskrá (International Carbon Registry (ICR)).

Staðfesting (Validation)

Mat á því hvort verkefni stenst kröfur sem settar eru fram í Skógarkolefni. Matið er á höndum vottunaraðila með viðeigandi faggildingu.

Stofndagur verkefnis (Project Start Date)

Síðasti dagur gróðursetningar. Kolefnisbinding verkefnis og verkefnistími telst frá þeim degi.

Svæði (Area)

Það land sem ræktunaráætlun verkefnis nær til.

Tryggingareining (Buffer Unit)

Þetta eru óráðstafaðar Skógarkolefniseiningar sem má ekki selja og haldið er til hliðar í Loftslagsskrá (International Carbon Registry (ICR)) til að mæta ófyrirséðum afföllum. Tryggingareiningar nema 20% af heildarfjölda eininga. Við lok verkefnis falla þessar einingar niður en fullgildar einingar verða til úr allri bindingu sem staðfest verður og sannprófuð í síðustu úttekt.

Tvítalning (Double-counting)

Nokkur atriði gætu leitt til tvítalningar:

  • Tvöföld sala (Double-selling) – Sama kolefniseiningin er seld oftar en einu sinni mismunandi kaupendum. Gott skráningarkerfi Loftslagsskrár getur haldið hættunni á þessu í lágmarki.
  • Tvöföld vottun (Double Certification) – Sama kolefnisverkefnið er vottað samkvæmt tveimur eða fleiri kröfusettum um kolefnisverkefni eða kolefnisstöðlum. Halda má hættunni á þessu í lágmarki með því að krefjast þess að einungis sé notast við eitt skráningarkerfi fyrir Skógarkolefniseiningar og að allir þeir sem halda úti skráningarkerfum fyrir Skógarkolefni tryggi að verkefni sem kemur inn til skráningar hafi ekki þegar verið skráð í öðru kolefnisskráningarkerfi.
  • Tvöföld verðgilding (Double Monetisation) – Verður ef kolefniseining í löndum sem tilheyra viðauka 1 í Loftslagssamningi SÞ (UNFCCC) er fyrst vottuð fyrir það verkefni sem það tilheyrir í upphafslandinu og svo aftur af hálfu yfirvalda í því landi sem tekið hefur að sér útvega bindinguna. (Assigned Amount Unit or Removal Unit) Þetta á við um flest lönd sem tilheyra viðauka 1.
  • Tvöföld krafa (Double-claiming) – Fleiri en einn aðili skráir sömu Skógarkolefniseiningu í kolefnisbókhald sitt. Tiltekið fyrirtæki kann að telja sjálfsagt mál að fá umbun fyrir að „framleiða kolefnishlutlausa vöru“. Seljandi sömu vöru kann að telja sjálfsagt mál að fá líka umbun fyrir að selja vöruna vegna þess að hún sé „kolefnishlutlaus“. Jafnvel kunna stjórnvöld í viðkomandi landi að vilja fá umbun fyrir þennan sama loftslagsávinning af því að hann hafi stuðlað að kolefnishlutleysi landsins.

Upphafsdagur verkefnis (Project Implementation Date)

Dagurinn þegar framkvæmdir hefjast við verkefnið, hvort sem um er að ræða t.d. girðingarvinnu, jarðvinnslu eða gróðursetningu.

Upphafsstaða (Baseline)

Sjá:

Úthlutun (Assignment)

Skráning Skógarkolefniseininga í bið (Pending Issuance Units) í Loftslagsskrá (International Carbon Registry (ICR)) á nafni kaupandans.

Valkvæði markaðurinn (Voluntary Carbon Market)

Svokallaður valkvæður kolefnismarkaður, sem gjarnan er talað um sem „valkvæða markaðinn“ með greini, er markaður sem ekki er skyldubundinn, ólíkt viðskiptakerfi ESB, þar sem aðilum er skylt að standa skil á kolefniseiningum á móti losun. Eins og felst í orðinu „valkvæður“ er engin slík skylda á valkvæða markaðnum, hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Valkvæður kolefnismarkaður örvar smærri fyrirtæki og einkaaðila til þátttöku í því að draga úr losun og stuðla að bindingu kolefnis. Valkvæði markaðurinn nær til stórra og smárra verkefna. Þessum valkvæða markaði má ekki blanda saman við skyldubundin kerfi eins og t.d. viðskiptakerfi ESB, þ.e.a.s. ekki er hægt að gefa út kolefniseiningar á valkvæðum markaði fyrir starfsemi sem fellur undir viðskiptakerfi ESB og sambærileg kerfi. Helsti hvati valkvæða markaðarins til loftslagsaðgerða af hálfu fyrirtækja er sá, að fyrirtækin þurfa að leggja út fyrir kostnaði við kolefniseiningar á móti losun sinni. Eftir því sem þau draga úr losuninni minnka þessi útgjöld. Fyrirtæki sem nær að hætta allri losun þarf ekki að borga neitt fyrir kolefniseiningar. Það hlýtur að vera endanlegt markmið hvers vel rekins fyrirtækis og fer því vel saman við almenn loftslagsmarkmið. Vaxandi krafa viðskiptavina og samfélagsins alls um aukna ábyrgð í loftslagsmálum og á endanum kolefnishlutleysi ýtir á eftir fyrirtækjum eða öðrum lögaðilum að taka þátt í valkvæða markaðnum.

Sjá nánar: Auknar kröfur um vottun kol­efnis­verk­efna koma í veg fyrir græn­þvott

Varanleiki (Permanence)

Spurningin um hversu lengi kolefni sem tekið hefur verið úr andrúmsloftinu er geymt í skógi.

Vaxtarlota (Rotation)

Tíminn frá gróðursetningu skógar og þar til kemur að endurnýjun hans.

Verkefnahópur (Group Scheme)

Hópur verkefna sem teflt er saman til þess að öðlast vottun. Verkefnastjóri hefur yfirumsjón með þessum verkefnum og stillir saman strengi. Verkefnastjórinn er ábyrgur fyrir því að öll verkefnin í hópnum standist settar kröfur Skógarkolefnis.

Verkefnastjóri (Project Developer)

Sjá:

Verkefni (Project)

Eitt einstakt nýskógræktarverkefni af hvaða stærð sem er þar sem gróðursetning getur farið fram á allt að fimm árum. Verkefni getur samanstaðið af mörgum sjálfstæðum reitum. Skógarreitir verða að vera á landi í sameiginlegri eigu eða tilheyra ræktunaráætlun sama eiganda.

Verkefnislýsing (Project Design Document)

Sjá Ræktunaráætlun

Verkefnistími (Project Duration)

Tímabilið sem framkvæmdir á vegum tiltekins verkefnis skulu lúta eftirliti, vottun og uppfylla kröfur um bindingu. Verkefni geta staðið í allt að 100 ár.

Viðbót (Additionality)

Verkefni er „viðbót“ ef það og aðgerðirnar sem því tilheyra eru ekki áskildar í lögum og hefðu ekki verið mögulegar án fjármögnunar til kolefnisbindingar.

Sjá:

Vottun (Certification)

Reglulegt mat (staðfesting og sannprófun) á verkefni með hliðsjón af reglum Skógarkolefnis, unnið af aðila með viðeigandi faggildingu. Við vottun skal metið hversu mikil kolefnisbinding hefur orðið á viðkomandi svæði og staðfest að farið hafi verið eftir reglum Skógarkolefnis.

Vottunaraðili (Validation and Verification Body VVB)

Sjálfstæður þriðji aðili með viðeigandi faggildingu til að staðfesta, sannprófa og votta verkefni sem Skógarkolefni hefur eftirlit með.

Vottunartímabil (Vintage)

Tímabil þegar Skógarkolefniseiningar eru vottaðar. Skógarkolefni áætlar og tekur út bindingu á fimm eða tíu ára fresti, t.d. 2020-2030. Slíkt tímabil er kallað vottunartímabil.

Vöktunarskýrsla (Monitoring Report)

Skýrsla þar sem teknar eru saman niðurstöður vettvangsmælinga og annarrar vöktunar áður en að sannprófun kemur.

Sjá: