Kröfur
Gera skal ræktunaráætlun sem gerir grein fyrir upphafsáföngum skógræktar og inniheldur:
- Yfirlit yfir kostnað og fjármögnun og þar með fjárhagsáætlun
- Samantekt um þær aðferðir og tegundir sem notaðar verða
- Tímasetningu fyrirhugaðra aðgerða
- Rökstuðning fyrir vali á tegundum
- Áhættumat vegna þátta sem geta spillt nýskógræktinni eða skaðað uppvaxinn skóg
- Kort yfir skógræktarsvæðið sem sýna reiti, undirbúning lands, fyrirætlaða gróðursetningu eftir tegundum, slóðir og staðsetningu fornleifa og annarra úrtaka
- Töflur með upplýsingum um gróðurgerð, jarðveg, bratta, grýti, undirbúning lands, trjátegundir, fjölda þeirra og þéttleika gróðursetningar.
Ræktunaráætlun skal endurskoða eftir þörfum á meðan framkvæmdir standa yfir. Leggja þarf fram hugmyndir um áformaða umhirðu á verkefnistímanum og til lengri framtíðar.
Verkefnastjóri skal hafa þá þekkingu og þau umboð sem þarf til að fylgja eftir ræktunaráætlun allan samningstímann. Í því tilliti getur komið til þess að gerð verði krafa um skógfræðimenntun eða að verkefnisstjóri hafi sótt tiltekin námskeið (eitt eða fleiri).
Gögn vegna staðfestingar verkefnisins
- Ræktunaráætlun sem tekur á þeim atriðum sem nefnd eru hér að ofan
- Listi yfir starfsmenn verkefnisins þar sem getið er um reynslu þeirra og hæfni til verksins
Frekari gögn vegna sannprófunar á síðari stigum
- Endurskoðuð ræktunaráætlun sem inniheldur rökstuðning fyrir breytingum
- Endurskoðuð áætlun um umhirðu skógarins til lengri tíma
- Endurskoðað gróðursetningarkort ef mörk svæðis eða áætlun hefur breyst
Leiðbeiningar
- Ef ræktunaráætlun vegna annarra verkefna liggur fyrir getur hún verið fullnægjandi
- Bent er á að skoða viðmið og vísa um sjálfbæra skógrækt á vef Skógræktarinnar.1 Þar koma fram atriði er varða loftslagsbreytingar, jarðveg, vatn, líffræðilega fjölbreytni, landslag, menningarminjar og samfélag
ÍTAREFNI
Ræktunaráætlun – ítarefni
- Kröfur
- Skjöl ræktunaráætlana
- Langtíma stjórnunaráform
- Kortlagningarreglur Skógarkolefnis
Ræktunaráætlun – ítarefni
1. Kröfur
Gera skal ræktunaráætlun sem í upphafi er sniðin að framkvæmdum við nýskógræktina og inniheldur:
- Yfirlit yfir kostnað og fjármögnun og þar með fjárhagsáætlun
- Samantekt um þær aðferðir og tegundir sem notaðar verða
- Tímasetningu fyrirhugaðra aðgerða
- Rökstuðning fyrir vali á tegundum, m.a. vegna loftslagsbreytinga
- Áhættumat vegna þátta sem geta spillt nýskógræktinni eða skaðað uppvaxinn skóg (sjá 2.3 Öryggi og varanleiki)
- Kort yfir skógræktarsvæðið sem sýna reiti, undirbúning lands, fyrirætlaða gróðursetningu eftir tegundum, slóðir og staðsetningu fornleifa og annarra úrtaka
- Töflur með upplýsingum um gróðurgerð, jarðveg, bratta, grýti, undirbúning lands, trjátegundir, fjölda þeirra og þéttleika gróðursetningar (sjá einnig 3 Kolefnisbinding verkefnis).
Ræktunaráætlun skal endurskoða eftir þörfum, en frá upphafi skal tilgreina áform um viðhald, umhirðu og nýtingu skógarins á verkefnistímanum og til lengri framtíðar.
Verkefnisstjóri skal hafa þá þekkingu og þau umboð sem þarf til að fylgja eftir ræktunaráætlun allan samningstímann. Í því tilliti getur komið til þess að gerð verði krafa um skógfræðimenntun eða að verkefnisstjóri hafi sótt tiltekin námskeið (eitt eða fleiri).
Gildandi ræktunaráætlun skal kanna við staðfestingu verkefnis og hverja sannprófun.
Upplýsingar í ræktunaráætlun
- Gróðurfar
Kortleggja skal gróðurfar svæðisins og að lágmarki gera það samkvæmt kortalykli fyrir grunnkortlagningu skógræktarlands (Rit-Mógilsár 33-2015). Kanna skal einnig önnur aðgengileg gögn um gróður- og náttúrufar svæðisins.
Gróðurupplýsingarnar gefa vísbendingar um jarðvegsskilyrði fyrir trjáplöntur, þörf fyrir jarðvinnslu, og tegundir og gróðursamfélög sem taka þarf tillit til við skipulagningu svæðisins. Taka má tillit til gróðurs sem gæti dafnað áfram í skógarbotni eftir að skógurinn vex upp.
Hafa þarf í huga að í sumum tilvikum hafa umsagnaraðilar framkvæmdaáætlana notað vistgerðakort Náttúrufræðistofnunar Íslands sem heimild um gróðurfar svæða. Vistgerðarkortin fyrir láglendissvæði eru hins vegar byggð á fjarkönnunargögnum þar sem skekkja í greiningu vistgerða er veruleg. Þau hafa aðeins verið sannprófuð á litlum svæðum samanborið við þá landstærð sem um er að ræða. Auk þess eru flest gögnin orðin 10 ára gömul eða eldri og sýna því ekki endilega núverandi ástand. Vistgerðarkort NÍ hafa reynst ónothæf sem grundvöllur kortlagningar fyrir skógrækt, vegna mikilla skekkja í greiningu gróðursamfélaga og staðsetningu marka á milli þeirra. Gróðurfarskort sem unnin eru á staðnum og eru ný gefa því mun betri mynd af gróðurfari svæða (sjá einnig 3.1 Grunnstaða kolefnis).
- Jarðvegur
Skrá skal meginjarðvegsgerð eða -gerðir í hverri kortaeiningu og meta hve djúpur jarðvegurinn er, allt að 1 m dýpt. Tilgangurinn er að meta jarðvegsskilyrði og rótfestu fyrir trjáplöntur og líka til að geta gefið grófa mynd af kolefnisforða jarðvegs.
- Rökstuðningur í ræktunaráætlun
Setja skal fram rökstuðning fyrir vali á trjátegundum, tegundasamsetningu og aðferðum, til samræmis við markmið verkefnisins, t.d. varðandi kolefnisbindingu, myndun fjölbreyttra skógarvistkerfa og samfélagsþróun.
2. Skjöl ræktunaráætlana
Ef svæðið hefur þegar verið skipulagt til nýskógræktar, geta öll fyrirliggjandi skipulagsgögn nýst í kolefnisverkefnið. Verkefni skulu hafa skjalfest ferli við að uppfæra ræktunaráætlunina. Í verkefnalýsingu þarf að taka saman tilgang og helstu markmið verkefnisins, þar á meðal fyrirhugaða tegundasamsetningu skógarins. Ef breyting verður á þessum atriðum, eru þau uppfærð í framvinduskýrslu verkefnisins.
Í Landsáætlun í skógrækt (að teknu tilliti til loftslagsbreytinga, jarðvegs, vatns, líffræðilegrar fjölbreytni, landslags, sögulegs umhverfis og fólks) eru settar fram sjálfbærar aðferðir við skógrækt og kröfur til ræktunaráætlana (sjá einnig 4.1 Áhrif verkefnis á umhverfið og 5.1 Samfélagsábyrgð og sjálfbærni).
3. Langtíma stjórnunaráform
Skipuleggjendur verkefnisins þurfa að setja fram áform um viðhald, umhirðu og nýtingu skógarins meðan á verkefninu stendur og til lengri tíma (t.d. grisjun, flatarhögg með tiltekinni lotulengd, skógrækt með samfelldri krónuþekju eða skógrækt með lágmarksaðgerðum). Samræmi þarf að vera á milli þessara áforma og forsendna útreikninga á kolefnisbindingu skógarins (sjá einnig 3.4 Nettókolefnisbinding)
Kortlagningarreglur Skógarkolefnis
Verkefni þurfa að framvísa korti af skógræktarsvæðinu á pdf-formi. Kortið er eitt þeirra skjala sem teljast mikilvæg í Skógarkolefni. Verkefni skulu birta kortið í Loftslagsskrá og gera það þannig opinbert, sem gerir mögulegum kolefniskaupendum sem og vottunaraðilum kleift að staðsetja verkefnið og átta sig á mikilvægum atriðum á kortinu. Kortið þarf að gefa nákvæma mynd af þeim svæðum sem gróðursett er í og uppfylla eftirfarandi kortlagningarreglur:
- Kortagrunnur
Kortlagningin þarf helst að vera á hnitsettum kortagrunni í hnitakerfinu ISN93, en kort byggð á öðrum grunni eru tekin gild, að því gefnu að þau sýni nákvæmlega atriði eins og vegi, útlínur og mörk svæða, skóga, vatnsfarvegi o.s.frv. Nota skal kortamælikvarða sem hentar stærð verkefnisins.
- Mælikvarði
Kortið skal vera í sama mælikvarða og kortagrunnurinn sem er notaður.
- Titill – Heiti verkefnis
Titill kortsins ætti að vera samhljóða því heiti sem notað er í Loftslagsskrá og í öðrum skjölum verkefnisins (verkefnalýsingu og framvinduskýrslu).
- Útlínur
Útlínur verkefnisins ættu að vera greinilega auðkenndar, helst með rauðum lit.
- Svæði/reitir
Öll reitaskipting skógarins skal greinilega auðkennd og merkt (t.d. skyggð í mismunandi litum). Skóginum má skipta niður eftir tegundasamsetningu, þéttleika trjáa, gróðursetningarári eða landgerð. Ef kolefnisútreikningar eru sérstaklega gerðir fyrir aðskilin svæði í skóginum skal auðkenna útreikningana á sama hátt og tilsvarandi kortaeiningar. Reitaskipting skógarins mun síðar nýtast við úttektir og sannprófun ef nauðsynlegt reynist að flokka landið niður.
- Úrtök
Öll úrtök skulu greinilega auðkennd þar sem því verður við komið. Undir þetta falla svæði sem eru sérstaklega undanskilin framkvæmdum og annað land sem ekki er gróðursett í. Merkja skal greinilega alla skóga sem fyrir eru innan svæðisins og nýskógrækt sem ekki er hluti af kolefnisverkefninu.
- Girðingar
Nýjar og eldri girðingar og hlið þurfa að vera greinilega merkt á kortið.
Ef ekki er hægt að greina á milli útlína reita og girðinga á kortinu getur verið nauðsynlegt að útbúa sérstakt girðingarkort fyrir svæðið og setja með meginkortinu í eitt pdf-skjal.
- Hnitun
Merkja skal kortið með hnita- eða talnatilvísun einhvers staðar innan marka skógarins, helst nálægt miðjunni. Þetta ætti að vera sama tilvísun og notuð er í öðrum skjölum (þ.e. í verkefnislýsingu og hjá Loftslagsskránni). Ef verkefnisvæðið er ósamfellt, þ.e. í aðskildum reitum, skal tilvísunin vera í miðlægasta eða stærsta reitnum.
- Aðgengi
Tilgreina skal hentugar aðkomuleiðir inn á svæðið. Þær upplýsingar koma að gagni þegar heimsækja þarf verkefnið vegna úttekta, staðfestingar og sannprófunar.
- Kortaskýringar
Öll atriði (reitir, línur eða punktar) á kortinu skal tilgreina í kortaskýringum.
- Kort á mörgum síðum
Ef kortið nær yfir nokkrar síður, þarf:
- Að birta heiti verkefnisins á hverri síðu
- Að hnitsetja a.m.k. eina kortaeiningu á hverri síðu, svo hægt sé að staðsetja upplýsingarnar á kortinu
- Að allar síðurnar séu saman í einu pdf-skjali