3.2 Kolefnisleki

Kröfur

  • Landeigandi skal gera grein fyrir því hvort breytt eða aukin landnýting verður á öðrum stað vegna verkefnisins
  • Ef gert er ráð fyrir kolefnisleka vegna breyttrar landnýtingar annars staðar, þó á Íslandi, þarf að meta hvort og þá hvað mikið losnar af gróðurhúsalofttegundum við slíkar framkvæmdir
  • Ef marktæk losun gróðurhúsalofttegunda verður skal meta hana allan samningstímann og reikna með henni í útreikningum á nettókolefnisbindingu (3.4). Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að kolefnisleki verði enginn út samningstímann

Leki er metinn við staðfestingu verkefna. Breytingar á leka eru metnar við hverja sannprófun.

Gögn vegna staðfestingar

  • Ef stefnt er að breyttri landnotkun annars staðar vegna verkefnisins skal geta þess
  • Mat á kolefnisleka vegna þeirrar breyttu landnotkunar

Frekari gögn vegna sannprófunar á síðari stigum

  • Staðfest skal í framvinduskýrslu að fyrir liggi nýtt mat á kolefnisleka vegna verkefnisins

Leiðbeiningar

  • Kolefnisleki utan skógræktarsvæðisins vegna verkefnisins gæti orðið við breytta landnotkun, t.d. vegna breytinga á beitarálagi. Kolefnisleki telst marktækur ef hann er ≥5% af kolefnisbindingu vegna verkefnisins á samningstímanum

ÍTAREFNI

Líkurnar á kolefnisleka

Með „leka“ í kolefnisbindingarverkefnum er átt við breytingar á landnotkun utan verkefnisins sem geta orðið vegna verkefnisins. Ekki er átt við kolefnislosun við verkefnið, svo sem vegna plöntuflutninga, jarðvinnslu eða áburðarnotkunar, þar sem reiknað er með þeirri losun í nettóbindingu verkefnisins.

Hið hefðbundna dæmi um kolefnisleka er ef verkefni felur í sér skógvernd, þ.e. að draga úr eða banna skógarhögg. Slíkt breytir því ekki að eftirspurn er eftir skógarafurðum og þá er líklegt að tré verði bara felld á öðrum stað til að uppfylla hana. Þar með er nettóávinningur skógverndarinnar lítill eða enginn m.t.t. kolefnisbindingar vegna aukinnar losunar á öðrum stað í staðinn (leka).

Skógarkolefnisverkefni fjalla eingöngu um nýskógrækt að svo stöddu og því á skógverndardæmið ekki við. Það eina sem valdið gæti leka við nýræktun skóga á Íslandi er vegna tilfærslu á beitarálagi, þ.e. ef beit sem var á skógræktarsvæðinu áður flyst á annað svæði og veldur meiri CO2-losun þar en áður var. Það á þó ekki við um sauðfjárbeit þar sem hún dreifist um mjög stór svæði vegna lausagöngu og því hefur friðun smárra svæða til skógræktar engin áhrif á beitarálag á margfalt stærri beitilöndum. Hins vegar er beit stórgripa (hrossa og nautgripa) yfirleitt innan girðinga og því er hugsanlegt að leki geti orðið ef t.d. hrossabeitarhólf er tekið til skógræktar og hrossin flutt á annan stað, þar sem beitarálag eykst þá frá því sem áður var. Á Íslandi er það helst helst í slíkum tilvikum sem þarf að huga að mögulegum leka sem kynni að verða vegna kolefnisverkefna með nýskógrækt.

Þó er einnig hugsanlegt að einnig megi tala um leka á öðrum. Það væri til dæmis ef hætt yrði við tiltekin skógræktarverkefni á vegum ríkisins á þeim forsendum að nú væri hægt að fjármagna þau með framlögum úr einkageiranum. Þá væru einkaframlögin ekki sú hreina viðbót sem ætluð var og því þyrfti að reikna samdráttinn af hálfu ríkisins sem leka. Þess vegna er nauðsynlegt að ríkið dragi ekki úr stuðningi sínum við skógrækt í ljósi aukinnar fjármögnunar frá öðrum aðilum.