Þau atriði í ræktunaráætlun og verkefnalýsingu sem snúa að umhverfissjónarmiðum eru skoðuð við staðfestingu verkefna. Aðgerðir til að framfylgja umhverfismarkmiðum í ræktunar- og umhirðuáætlunum og skráðar athuganir á lífríki skóganna eru kannaðar við hverja sannprófun.
Almenn umhverfisáhrif skógræktar: viðauki við umhverfismat landsáætlunar í skógrækt, desember 2021
Ljóst er að líkamleg hreyfing hefur góð áhrif á heilsu og eftir því sem fleiri hreyfa sig, þeim mun meiri eru jákvæð lýðheilsuáhrif. Skógar bjóða upp á aðstöðu til hreyfingar utandyra, sem margir kjósa fram yfir eða í viðbót við t.d. líkamsrækt eða sund. Einkum er það skjólið sem gerir skóga ákjósanlega, ekki síst hér á landi. Einnig má nefna snjósöfnun að vetrarlagi, sem fólk notfærir sér til skíðagöngu.1
Það eitt að njóta útiveru finnst mörgum nauðsynlegt, enda búa flestir í þéttbýli og vinna inni. Skógur er ákjósanlegur vettvangur til þess, hvort sem það er til að njóta einveru, vera með öðrum eða skoða náttúru. Japanar tala um að „fara í skógarbað“, að sökkva sér í skóginn og telja það hafa mjög góð áhrif bæði á andlega2 og líkamlega3 heilsu. Mikið liggur fyrir af rannsóknum sem styðja það sem og að ákveðin verkefni í skógivöxnu umhverfi geti nýst til meðferðar á ákveðnum andlegum kvillum, svo sem þunglyndi, útbruna og kvíða4.
Berjatínsluhefð á Íslandi er ekki sérstaklega tengd skógum, en margir leggja þó leið sína í skóga eða kjarr til að tína hrútaber og stundum aðalbláber. Þá hefur sveppatínsla orðið algeng á undanförnum árum5, enda er nú umtalsverður hópur Íslendinga af erlendum uppruna þar sem mikil hefð er fyrir sveppatínslu auk þess sem almenn vakning hefur orðið. Ekki síst eru það lerki-, furu- og blandskógar sem fólk sækir í. Þótt veiðar séu lítið stundaðar í skógum, þá er skóglendi mikilvægt vetrarkjörlendi rjúpna.
Löng hefð er fyrir því að nota skóga landsins sem samkomustaði. Má þar nefna Atlavík í Hallormsstaðaskógi, Vaglaskóg, Ásbyrgi, Þórsmörk og Vatnaskóg.
Rannsóknir hafa sýnt að útikennsla getur aukið námsvilja og hreyfingu skólabarna, auk þess að stuðla að betri andlegri og líkamlegri líðan6. Skógar bjóða upp á fjölbreytta kennslumöguleika, auk þess að veita skjól fyrir veðri og vindum.
Nánast allar fjárveitingar til skógræktar skapa störf og flest eru þau utan höfuðborgarsvæðisins. Þau sem tengjast upphafi skógræktar og friðun skóga og skógræktarlands eru fyrirferðamest. Eru það einkum störf á vegum skógarbænda og verktaka en einnig hjá Skógræktinni og skógræktarfélögum.
Með vaxandi skógum skapast störf við vinnu í skógi. Hingað til hafa þau verið styrkt af ríkinu en í auknum mæli er viðarsala farin að standa undir þeim, t.d. sala á viðarkurli til kísilmálmframleiðslu. Slík vinna verður stækkandi hluti verktakavinnu í dreifbýli á komandi árum.
Þegar eru nokkur fyrirtæki sem vinna afurðir úr íslenskum skógum8. Nefna má arinvið, borðvið, girðingarstaura, efni í undirburð, handverksmuni, ilmolíur, þurrkaða sveppi, birkisýróp, skreytingarefni o.fl. Með stækkandi skógarauðlind fjölgar slíkum tækifærum og störfum sömuleiðis.
Hráefni úr skógum býður ekki síður uppá möguleika til hönnunar9 og annarrar nýsköpunar10 en hráefni úr landbúnaði eða sjónum.
Stór hluti frístundahúsa er í skóglendi. Í tengslum við slíka frístundabyggð hafa orðið til verslanir og önnur þjónusta. Þá hafa skógareigendur boðið leigu á dvöl í skógi, s.s. fjallahjólabrautir o.fl. þ.h.
Stærstur hluti gróðurhulu Íslands saman stendur af mólendi, mótuðu af aldalangri beit, og rofnu landi með ósamfelldum gróðri. Jafnframt er það slíkt land sem helst er í boði til skógræktar. Frumframleiðni plantna, sem er undirstaða alls annars lífs, er mun minni á þessu landi en hún gæti verið miðað við loftslag. Á melum er það vegna lítillar gróðurhulu, sem stafar af jarðvegsrofi, næringarefnaskorti í jarðvegi og öðrum þáttum sem draga úr framvindu í átt til samfelldari gróðurs, svo sem áframhaldandi beit og frostlyftingu. Í mólendi er það vegna þess að langvarandi beit hefur dregið niður köfnunarefnisforða jarðvegsins og fært samsetningu gróðurs til smávaxinna og nægjusamra plöntutegunda. Tilkoma skógar í slíku landi, ásamt þeirri beitarfriðun sem skógrækt fylgir, flýtir fyrir myndun samfelldrar gróðurhulu á melum og framvindu til gjöfulli gróðurs í móum. Það eru þó trén sjálf sem eru mestu frumframleiðendurnir og standa undir stofnum sveppa og smádýra í jarðvegi, skordýra, spendýra og fugla.
Náttúruskógar eru búsvæði allmargra lífverutegunda sem finnast síður eða ekki utan þeirra. Má þar nefna skuggþolnar plöntutegundir, skógarfugla á borð við auðnutittling og músarrindil og margar svepptengundir. Þessar sömu tegundir setjast að í ræktuðum skógum, bæði af birki og öðrum trjátegundum11.
Aðgerðir á borð við að gróðursetja til skógar eru inngrip sem áhrif hafa á framvindu vistkerfisins í framhaldinu. Skógurinn skapar búsetuskilyrði fyrir ýmsar lífverur til að setjast að, ef þær á annað borð komast þangað. Svo breytast þau skilyrði með þroska skógarins. Það samsafn lífvera myndar skógarvistkerfi hvers tíma. Sama hvaða trjátegund er notuð, þá líkjast þau birkiskógavistkerfum að verulegu leyti því það eru tegundir birkiskógavistkerfa sem líklegastar eru til að setjast að í nýjum skógum. Aðrar skógarlífverur höfum við ekki á Íslandi (nema örfáa nýja landnema). Það er þó ýmsu háð (e.t.v. mest tilviljun) hvaða lífverur berast, hversu hratt, hversu stórir stofnar þeirra verða og hver hlutföllin verða á milli þeirra. Hvert vistkerfi verður því nýstárlegt, þ.e. ekki eins og annað sem áður hefur verið. Það á augljóslega við um vistkerfi með innfluttum trjátegundum, en það á einnig við þegar gróðursett er birki og reyndar einnig um önnur inngrip svo sem að fylla í skurði eða dreifa áburði. Úr verður framvinda sem leiðir til myndunar nýs vistkerfis, sem getur líkst fyrri vistkerfum (t.d. náttúrlegum birkiskógum) meira eða minna.
Hægt er að setja sér það markmið með landgræðsluaðgerðum að endurheimta náttúruskóga, sem ætlað eða vitað er að hafi verið á staðnum áður. Sem fyrr segir þá er það þó ekki endurheimt í þeirri merkingu að til verði það sem glataðist, heldur mótun nýs vistkerfis sem líkist hinu glataða. Með frekari aðgerðum til að stýra framvindunni, svo sem að flytja fleiri skógartegundir inn á svæðið og að útrýma tegundum sem ekki voru í skógum áður (nýjum landnemum), er þó hægt að búa til dágóða eftirlíkingu. Það er þó sjaldnast gert, aðeins látið duga að gróðursetja birki.
Upphaf jarðvegsrofs má oft rekja til skógareyðingar og þess að sá lágvaxni gróður sem eftir var gat ekki staðið áfok, vindálag, frosthreyfingar eða vatnsflæði af sér. Skógur endurskapar lóðréttu víddina í uppbyggingu gróðursins, skýlir lággróðrinum og þolir mun betur áfok. Þar sem trén eru langlíf vara þau áhrif lengi og skapa skilyrði til uppsöfnunar næringar og kolefnis í jarðvegi. Eigi trén þar að auki auðvelt með að fjölga sér (t.d. birki) geta þau viðhaldið skógarvistkerfinu til mjög langs tíma.
Trén sjálf og skjólið sem þau skapa við yfirborðið viðhalda öflugri gróðurþekju. Á ákveðnu aldursskeiði ungra, sígrænna skóga verður þéttleiki trjánna stundum svo mikill að ljóselski lággróðurinn sem fyrir var hverfur og eftir er þykkt nálalag. Sumir líkja þessu við gróðureyðingu, en sá er munurinn á að nálalagið er tekið við sem jarðvegsverndari og í því er mikið líf sveppa og smádýra. Þegar fram líða stundir og skógurinn er grisjaður eða sjálfgrisjast taka skógarplöntur til við að nema land og gróðurhula skógarbotnategunda myndast. Í skógum sumargrænna trjátegunda, t.d. birkis og lerkis, hverfur lággróðurinn ekki en framvinda leiðir til þess að ljóselskustu tegundirnar víkja smám saman fyrir skuggþolnari plöntutegundum.
Skógur virkar sem svampur í mun meira mæli en skóglaust land eða votlendi. Hann getur tekið við miklu vatnsmagni í vætutíð og miðlar vatninu hægt til jarðvegs og út í ár og læki.
Snjór safnast gjarnan í skógi og viðhelst þar betur yfir veturinn en á opnu landi. Þar bráðnar hann svo hægar að vori og vatnið seytlar í jarðveginn frekar en að renna burt á yfirborðinu. Laufkrónur trjáa hægja á regnvatni og koma í veg fyrir að hluti þess nái til jarðar. Í stórrigningum getur það skipt miklu máli við að koma í veg fyrir jarðvegsrof.
Mengunarefni á yfirborðinu, t.d. áburður eða saurgerlar, berast með yfirborðaflæði vatns í ár og vötn og valda þar neikvæðum áhrifum. Skógur dregur úr yfirborðsflæði vatns og þar með úr að mengun berist í ár og vötn.
Skógur lyftir vindi upp frá yfirborðinu og stöðvar vindrof.
Mismunandi skógar skapa mismunandi liti og hrjúfleika yfirborðs. Þar með hefur uppvöxtur skógar breytingu á áferð og litum lands í för með sér. Sitt sýnist hverjum um þá breytingu. Þar sem þetta er fyrst og fremst smekksatriði, þá er endalaust hægt að deila um það með „mér finnst“ rökum. Fáir kvarta þó beinlínis undan þessum þáttum.
Ræktun skógar krefst þess að girt sé um skógræktarsvæðið til að útiloka beit. Af kostnaðar- og viðhaldsástæðum eru girðingar beinar. Af nýtni vilja skógareigendur gjarnan nota það land til skógræktar sem tekið var frá og girt. Því er gjarnan gróðursett að girðingunum og þar myndast þá beinir jaðrar á milli skógar og skóglauss lands. Undan slíkum skilum í landslagi er oftar kvartað en undan sjálfum skóginum. Skil á milli landforma, t.d. þurrlendis og votlendis mynda einnig skógarjaðra, en þeir eru sjaldnast beinir og valda því ekki sömu umkvörtunum. Reynt er að draga úr þessum áhrifum með því að gróðursetja í stærri svæði og hvetja skógræktendur til að gróðursetja ekki fast að beinum girðingum. Það hefur víða tekist.
Helsta áhyggjuefnið í tengslum við skóg og landslag er að skógur getur byrgt útsýni.1 Í þeim efnum hafa sumir viljað banna alla skógrækt innan 100 m frá öllum vegum, sem er nokkuð öfgakennd afstaða. Hér gildir að vinna undirbúningsvinnu við að skilgreina mikilvæga útsýnisstaði og vegakafla og sleppa gróðursetningu þar. Það er gert við gerð ræktunaráætlana.
Langvarandi einsleit landnotkun (einkum sauðfjárbeit) hefur mótað vistkerfi á þann hátt að hávaxnar plöntutegundir, svo sem birki, víðitegundir, stórvaxnar grastegundir og breiðblaða jurtir hafa hætt að vera ríkjandi í gróðurfari á víðáttumiklum svæðum en í staðinn hafa lágvaxnari og nægjusamari plöntutegundir orðið ríkjandi í gróðri, svo sem lyngtegundir, mosi, smávaxin grös og smávaxnar breiðblaða jurtir. Víða hefur sá gróður síðan eyðst vegna jarðvegsrofs og eftir eru melar og sandar með ósamfelldum og smávöxnum gróðri. Þessi gróðurmótun hefur síðan áhrif alla leið upp fæðukeðjuna, þ.e. á tegundir og stofnstærðir sveppa, smádýra og stærri dýra, svo sem fugla. Með öðrum orðum, þá hentar landnotkun til beitar sumum lífverutegundum betur en öðrum.
Með því að taka land úr beitarnotum og rækta þar skóg tekur sú staða að vinda fram og framleiðni vistkerfisins eykst. Þá hentar svæðið sumum tegundanna sem fyrir voru verr, en öðrum betur auk þess að skilyrði myndast til landnáms enn annarra tegunda, einkum þeirra sem helst tengjast náttúruskógum, að mestu óháð því hvaða trjátegundir eru notaðar.11 Áhrif þessara vistkerfisbreytinga eru umtalsverðar fyrir lífríkið þar sem skógur er ræktaður (á nærumhverfið). Heildaráhrif slíkra breytinga á stofnstærðir lífvera á landslagsvísu eða landsvísu eru undir áhrifum margra þátta, þar sem skógrækt er aðeins einn þeirra og misjafnt eftir tegundum og tegundahópum hver áhrif skógræktar eru, ef nokkur.
Í þessum efnum hefur mest verið fjallað um áhrif skógræktar á mófugla og langmest um lóu og spóa, þar sem stór hluti heimsstofns þeirra tegunda verpir á Íslandi. Þær tegundir verpa ekki í skógi og leiddar hafa verið líkur að því að minnkun flatarmáls varpbúsvæða með skógrækt kunni að hafa neikvæð áhrif á stofnstærðir þeirra (Tómas Grétar Gunnarsson, 2020, Búsvæði og vernd íslenskra vaðfugla. Náttúrufræðingurinn 90. árg. 2.-3. hefti, bls 145-163). Áhrif skógræktar eru flóknari en svo að beint samband sé á milli flatarmáls lands sem breytt er úr mólendi í skóg og stofnstærða þessara fuglategunda. Aðrir þættir sem áhrif geta haft á stofnstærðir mófugla, svo sem samdráttur í sauðfjárbeit í sumum landshlutum eða almennt aukin þéttleiki gróðurs á sunnan- og vestanverðu landinu, eiga sér stað á mun víðáttumeiri svæðum en skógrækt. Sem dæmi má nefna að um leið og verið er að rækta skóg á um 1.500 ha árlega, þ.a. um 1.000 ha á mólendi, er unnið að uppgræðslu án skógar á mun stærri landsvæðum, t.d. rúmlega 5.000 ha í Bændur græða landið13 verkefni Landgræðslunnar. Þar má ætla að verið sé að skapa varplönd sem henta lóu og spóa þar sem áður voru melar sem hentuðu þeim ekki. Hver áhrif skógræktar eru í heildarmyndinni er óljóst en þau eru sennilega einhver þó. Um leið og þetta er dregið fram má jafnframt benda á hið gagnstæða, t.d. möguleg jákvæð áhrif skógræktar á stofna skógarfugla, þótt þar sé ekki heldur einfalt orsakasamhengi.
Vegna aðlögunar sinnar að mismunandi umhverfi hafa plöntutegundir misjafnt skuggþol. Þær tegundir sem eru ríkjandi á opnu landi þola sumar ekki við þegar tré vaxa upp og þær lenda í skugga þeirra. Á það t.d. við um margar melajurtir. Aðrar þola það betur. Útkoman er sú að þær plöntutegundir sem mynda botngróður eldri skóga eru að mestum hluta ekki þær sömu og mynda gróður skóglauss lands14.
Svipað gildir um dýrategundir og um plöntur, en að mestu vegna aukinnar framleiðni og skjóls frekar en birtu. Samsetning dýrategunda í skógi er ekki sú sama og á skóglausu landi.
Svipað gildir um sveppi og smádýr í jarðvegi og er sérstaklega oft mun meira af sveppum í jarðvegi skógar en á skóglausu landi.
Mikið er gert úr því að fjöldi háplöntutegunda sé minni í uppvaxandi skógi en áður var í móanum eða melnum þar sem skógurinn var ræktaður og er það rétt eins langt og það nær. Það á reyndar við um allar vistkerfisbreytingar að lífverurnar sem nýju aðstæðurnar henta ekki, eru fljótari að hverfa en hinar, sem aðstæður nú henta, eru að nema land. Með tímanum nema þær þó land, en háplöntur eru lengur að því en aðrir lífveruhópar vegna hægfara dreifingar. Sveppir, fléttur og mosar, sem dreifast með léttum gróum, eru mun sneggri að nema skóga. Það eru skordýr sem fljúga og smádýr sem fjúka einnig. Fuglar og spendýr eru mjög fljót að nema nýja skóga. Þegar allt er til tekið er heildar tegundaauðgi ekki minna í skógum en á opnu landi. Breyting er með aldri skógarins einnig, eins og vænta má að sé yfirleitt við framvindu vistkerfa, en hún er ekki í átt að sífellt minnkandi tegundaauðgi.15
Almennt samband er á milli frumframleiðslu vistkerfis og heildar lífmassa eða stofnstærða lífveruhópa. Skógar eru framleiðslumeiri en land með lágvaxnari gróðri. Heildarlífmassi plantna er mun meiri í þeim en lífmassi lágvaxinna plantna ekki endilega. Lífmassi sveppa og allra dýrahópa er einnig meiri í skógi en á skóglausu landi yfirleitt.
Skv. niðurstöðum skógvistarverkefnisins hafa trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt ekki marktæk áhrif á líffræðilega fjölbreytni skógarins í heild16. Á því er sú eðlilega skýring að þær lífverur hér á landi sem aðlagaðar eru aðstæðum í skógi koma allar úr eina skógarvistkerfinu sem hér hefur verið og þróast um árþúsundir – birkiskógi. Þær sömu nema svo land í skógum annarra trjátegunda.
Munurinn á skógi og skóglausu landi er mikill og þar með hefur tilkoma skógar á áður skóglausu svæði mikil áhrif á lífríki þess svæðis og nokkur áhrif á jaðarsvæði þess (α fjölbreytni). Þau áhrif eru misjöfn eftir lífverutegundum og tegundahópum eins og áður hefur komið fram. Skógur sem vistgerð í landslagi sem er að öðru leyti skóglaust hefur annars konar áhrif á lífríkið (β fjölbreytni). Tilkoma skógar eykur fjölbreytni vistgerða, a.m.k. um eina, að því gefnu að ræktun hans hafi ekki eytt neinni vistgerð sem fyrir var. Það fer síðan eftir útbreiðslu skógar í viðkomandi landslagsheild hversu víðtæk þau áhrif eru. Á landsvísu (γ fjölbreytni) hefur skógrækt lítil heildaráhrif vegna lítils umfangs og líklegt er að svo verði lengi áfram.
Vegna einangrunar landsins og jarðsögulegra þátta er trjátegundaflóra Íslands afar fátæk og aðeins ein tegund myndar náttúruskóga – birki. Sú einhæfni setur verulegar skorður við skógarnytjar og þýðir að náttúruskógar Íslands eru viðkvæmari fyrir raski, t.d. af mannavöldum eða vegna loftslagsbreytinga, en ef skógar væru hér fjölbreyttari. Nauðsynlegt er að nota innfluttar trjátegundir til að ná framleiðslumarkmiðum skógræktar og þær geta verið skilvirkari en sú innlenda til að ná öðrum markmiðum einnig, svo sem kolefnisbindingu, uppgræðslu lands og útivistarmarkmiðum. Innfluttar trjátegundir:
Við góð skilyrði geta alaskaösp, stafafura, sitkagreni og rússalerki bundið koltvísýring úr andrúmsloftinu margfalt hraðar en birki við sömu skilyrði16. Þessar tegundir eru því mikilvægar til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir 2040.
Íslenska birkið er hægvaxta og smávaxið auk þess að ná því aldrei að vera nægilega beinvaxið til hagkvæmra skógarnytja. Reynsla síðustu 120 ára er sú að margar trjátegundir sem hér geta vaxið taka birkinu fram um bæði framleiðni og viðargæði. Án innfluttra tegunda verður ekki stunduð nytjaskógrækt á Íslandi.
Ein helsta leiðin til að auka þanþol vistkerfa til að mæta umhverfisbreytingum er að auka fjölbreytni. Í skógrækt þýðir það að nota fleiri en eina trjátegund. Svo gæti farið að birki og sumar aðrar tegundir sem notaðar eru í skógrækt verði sífellt verr aðlagaðar aðstæðum eftir því sem hlýnar, en ólíklegt er að þær verði það allar, a.m.k. ekki allar í einu.
Hin opinbera skilgreining á ágengri framandi tegund skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, 5. gr., 3. lið miðast eingöngu við áhrif á líffræðilega fjölbreytni: Ágeng framandi lífvera: Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni. Rétt er að taka fram að í skilgreiningunni er eingöngu fjallað um útlendar tegundir, þ.e. innlendar tegundir geta ekki orðið ágengar sama hvað þær breiðast út eða hvaða áhrif þær hafa á líffræðilega fjölbreytni.
Stafafura er sú trjátegund sem sumir hafa helst talið ágenga af þeim tegundum sem notaðar eru í íslenskri skógrækt. Því verður hún notuð hér sem dæmi. Stafafura hefur verið gróðursett á Íslandi síðan um miðjan 6. áratug 20. aldar og eru elstu stafafurulundirnir því um 65 ára gamlir. Síðan 1960 hefur hlutfall hennar í gróðursetningu haldist nokkuð stöðugt, eða á bilinu 10-20% af gróðursettum trjám hvers árs. Stafafura er því með mikilvægari tegundum í íslenskri skógrækt og hefur verið það lengi. Fræmyndun hefst tiltölulega snemma á stafafuru miðað við mörg önnur barrtré og má finna staka köngla á trjám sem eru innan við 10 ára gömul. Hins vegar hefst fræmyndun að gagni, og þar með möguleikinn á sjálfsáningu, ekki fyrr en trén eru orðin um 20 ára gömul. Fólk varð fyrst vart við sjálfsánar stafafurur á stöku stað fyrir 1980. Um aldamótin 2.000 mátti finna sjálfsánar furur víða við eldri furulundi og árið 2020 eru örfáir staðir þar sem sáningin er svo þétt að kalla megi skóg. Í Steinadal í Suðursveit er að finna elstu og þéttustu sjálfsáningu furu á landinu, enda skilyrði þar mjög ákjósanleg á framburðareyrum og í rofnum brekkum í næsta nágrenni upphaflega gróðursetta lundarins. Sáningin í Steinadal er reyndar blandskógur með birki þar sem birkið er í miklum meirihluta og er það að breiðast út mun hraðar og meira en furan17.
Í stuttu máli er ljóst að stafafura sáir sér út í því magni að til geta orðið þéttir skógar séu rétt skilyrði fyrir hendi. Upphaflegi reiturinn í Steinadal er 50-60 ára gamall svo dæmi sé tekið og afkomendurnir í næsta nágrenni hans eru rétt núna að hefja fræmyndun. Einnig er ljóst að furufræ berst ekki langar leiðir því sárasjaldgæft er að finna sjálfsána plöntu lengra frá móðurtrjánum en um 300 m eða í vel grónu landi17. Stök tré á strjálingi gera hvorki gagn né skaða m.t.t. líffræðilegrar fjölbreytni. Þéttur skógur sem vex upp á skóglausu landi hefur hins vegar afgerandi áhrif á flestar lífverur og lífveruhópa á staðnum, sumum til gagns, öðrum til ógagns.
Ljóst er að stafafura sáir sér einkum í næsta négrenni furureita og í raskað land. Á slíkum stöðum er afar ólíklegt að hún hafi neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni, sem hún þarf þó að hafa til að geta talist ágeng. Mjög langt er í að útbreiðsla hennar fari að teljast í hundruðum hektara, hvað þá þúsundum, sem er það sem þyrfti til að hún fari að hafa teljandi áhrif á líffræðilega fjölbreytni (jákvæð eða neikvæð).
Niðurstaða: Þegar tillit er tekið til alls þessa er ekki hægt að halda því fram með rökum eða tilvitnunum í heimildir að útbreiðsla stafafuru leiði til rýrnunar líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi (þ.e. sé ágeng). Það sem eftir stendur er þá tvennt: 1) Hvort stafafura sé að breiðast út á svæðum með sérstakt verndargildi, t.d. vegna sjaldgæfra tegunda eða landslagsþátta og 2) hversu erfitt eða auðvelt sé að koma í veg fyrir slíka útbreiðslu. Stafafura, sem önnur barrtré, eru meðal auðveldustu lífverutegunda til að hemja útbreiðslu á. Stafar það af því að hún er áberandi og því auðveldlega hægt að greina útbreiðsluna, það er a.m.k. 20 ára tímarammi þar sem hægt er að hefjast handa við aðgerðir áður en hún fer að breiðast meira út og hún drepst strax við það eitt að saga hana niður. Stefna um að hemja útbreiðslu hennar er þegar í gildi á Þingvöllum og í Ásbyrgi. Á báðum stöðum er þegar búið að fella gamlar furur að hluta og gengið er á sjálfsánar plöntur með nokkurra ára millibili. Ekki hefur reynst neinn vandi að hemja útbreiðslu stafafuru þar sem slík stefna er tekin.
Af þessu má ljóst vera að stafafura er ekki ágeng tegund á Íslandi, hvort heldur sem miðað er við lagalega skilgreiningu eða þá staðreynd að auðvelt er að ráða við hana. Það sama á ekki síður við um aðrar innfluttar trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt.
Talað er um kolefni sem til staðar er í mismunandi formi og á mismunandi stöðum sem kolefnisforða. Kolefni færist á milli forða, t.d. úr andrúmsloftinu í plöntur og úr niðurbroti í jarðvegi út í andrúmsloftið. Þannig skapast kolefnishringrásir. Loftslagsvandi nútímans stafar af mikilli færslu kolefnis úr gömlum og stöðugum forðum til andrúmsloftsins með bruna jarðefnaeldsneytis og úr skógum í andrúmsloftið með skógareyðingu og breyttri landnotkun. Í skógi er kolefni bundið í ýmsum efnasamböndum á ýmsum stöðum. Kljúfa má kolefnisforða skóga í „undirforða“ t.d. í mismunandi hlutum trjáa, öðrum gróðri, plöntuleifum og mold. Kolefnisforði skóga, hvort heldur í gróðri eða jarðvegi, er stærri og varanlegri en kolefnisforði annarra gróðurlenda á þurrlendi18.
Aðgerðir í bindingu kolefnis fást við að vinna með kolefnishringrásina, þ.e. að draga úr færslu kolefnis úr ýmsum forðum í forða andrúmaloftsins (draga úr losun) og að stuðla að aukinni færslu kolefnis úr forða andrúmsloftsins í aðra forða (auka bindingu), t.d. skóga. Með skógrækt eru einkum tvær leiðir notaðar, 1) að auka flatarmál skóga með skógrækt á áður skóglausu landi og 2) að breyta meðferð skóga til að auka kolefnisforða þeirra. Leið 1) er mest notuð á Íslandi.
Við varanlega skógareyðingu, t.d. við að skapa beitiland eða ræktarland, minnkar kolefnisforði svæðisins, a.m.k. um sem nemur kolefnið í trjánum, og endar í andrúmsloftinu. Þó ber að hafa í huga að með því að nýta viðinn t.d. í byggingar, helst kolefnið bundið í honum lengur. Við endurheimt skóga stækkar forði þess staðar á ný a.m.k. sem nemur kolefnið í trjánum og oft meira vegna aukinnar bindingar í jarðvegi.
Kolefnisforðar í gróðri og jarðvegi eru breytilegir innan ársins og yfir lengri tímaskala. Sveiflur geta verið mjög miklar og mikilvægt er að skoða uppbyggingu og viðhald kolefnisforða til lengri tíma. Því er stundum haldið fram að kolefnisbinding með skógrækt sé ekki varanleg, því trén eru ekki eilíf. Þegar þau eru höggvin eða drepist losnar hið bundna kolefni aftur til andrúmsloftsins á tiltölulega skömmum tíma og bindingin gengur til baka. Ákvörðun um að taka skóglaust land til skógræktar ber þó að skoða á annan hátt. Sé skóginum viðhaldið, t.d. með endurgróðursetningu eftir skógarhögg, er um varanlega stækkun kolefnisforða svæðisins að ræða svo lengi sem svæðinu er haldið í skógrækt, vissulega með breytileika innan og milli ára. Forðinn vex með vexti skógarins, minnkar síðan tímabundið við skógarhögg og tekur svo til við að vaxa á ný eftir endurgróðursetningu. Yfir lengri tíma verður til meðaltals kolefnisforði á svæðinu, sem er að jafnaði mun meiri en á skóglausu landi. Svo er hægt að efla hann með aðgerðum sem bæta vöxt trjáa, með vægari grisjun en ella og með endurnýjunaraðferðum sem viðhalda kolefnisforðanum sem best.
Þessi þáttur var ekki í upphaflegu matslýsingunni en ástæða er til að nefna hann.
Loftslagsspár gera ráð fyrir hlýnun andrúmsloftsins um 1°C-4°C að meðaltali yfir hnöttinn til ársins 2100. Spár eru samstíga í því að spá meiri hlýnun yfir meginlöndum en yfir hafinu og mun meiri hlýnun á norður heimskautasvæðinu en á lægri breiddargráðum. Flestar þeirra spá hvað minnstri hlýnun í Atlantshafinu sunnan Grænlands, jafn vel kólnun, og er misjafnt hvort áhrif þess svæðis nái til Íslands eða hvort meiri hlýnun norðar hafi hér meiri áhrif. Óvissan hvað varðar Ísland er því talsverð. https://www.ipcc.ch/site/assets/uploads/2018/02/WG1AR5_Chapter12_FINAL.pdf
Vegna þeirrar óvissu er áhersla lögð á aðferðir sem almennt eru viðurkenndar við að efla þanþol og auka aðlögunarhæfni. Þær eru:
Lagt er til að þessum þætti verði gerð betri skil við endurskoðun landsáætlunar í skógrækt að fimm árum liðnum og að tíminn þangað til verði notaður til að undirbyggja slíkt mat.
1. Sherry Curl og Hrefna Jóhannesdóttir 2005. Viðhorf Íslendinga til skógræktar. Skógræktarritið 2005(1). Skógræktarfélag Íslands, bls. 19-27; https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/gott-ad-ganga-a-skidum-i-skogi
2. Yasuhiro Kotera o.fl. 2022. Effects of Shinrin-Yoku (Forest Bathing) and Nature Therapy on Mental Health: a Systematic Review and Meta-analysis. International Journal of Mental Health and Addiction.
3. Qing Li 2018. Forest Bathing. How Trees Can Help You Find Health and Happiness. Penguin Life, 320 bls. ISBN 9780525559856;
Qing Li 2009. Effect of forest bathing trips on human immune function. Environ Health Prev Med. 15(1): 9-17;
Bum-Jin Park o.fl. 2009. The physiological effects of Shinrin-Yoku (taking in the forest atmosphere or forest bathing): Evidence from field experiments in 24 forests across Japan. Environmental Health and Preventive Medicine 15(1):18-26. DOI:10.1007/s12199-009-0086-9;
Qing Li 2010; Q.Li ofl 2009; Tsunetsugu o.fl. 2013. Physiological and psychological effects of viewing urban forest landscapes assessed by multiple measurements. Landscape and Urban Planning Volume 113, bls. 90-93. https://doi.org/10.1016/j.landurbplan.2013.01.014
4. Mardie Townsend 2006. Feel blue? Touch green! Participation in forest/woodland management as a treatment for depression. Urban Forestry & Urban Greening, Volume 5, Issue 3, bls. 111-120. https://doi.org/10.1016/j.ufug.2006.02.001
5. https://www.ruv.is/frett/2020/07/24/timi-villisveppanna-runninn-upp
6. Line Hage 2010. Uteskole - helse og læring hånd i hånd? : en praktisk tilnærming til kunnskap i grunnskolen - elevenes meninger og opplevelser. Meistararitgerð við norska lífvísindaskólann NMBU, 112 bls.;
Justin Dillon 2006. The value of outdoor learning: Evidence from research in the UK and elsewhere. The School science review 87(320): bls. 107-111.
Marc G. Berman o.fl. 2008. The Cognitive Benefits of Interacting With Nature. Psychological Science, 19: 1207-1212. DOI: 10.1111/j.1467-9280.2008.02225.x
7 Lilja Magnúsdóttir 2013. Hagræn áhrif skógræktar: Árangur í atvinnuuppbyggingu á vegum landshlutaverkefna í skógrækt. Meistararitgerð við LbhÍ. http://hdl.handle.net/1946/16757
8 T.d. https://www.skogarafurdir.is/; https://hraundis.is/; https://www.facebook.com/holtogheidar/; https://heidmork.is/vidarafurdir-thjonusta/; https://mold.is/vorur-og-verdskra/
9. https://bjornsteinar.com/Skogarnytjar
10. T.d. Björn Alriksson o.fl. 2014. Fish feed from wood. Cellulose Chemistry and Technology 48(9-10): 9-10.
11. Ásrún Elmarsdóttir o.fl. 2011. Áhrif skógræktar á tegundaauðgi. Náttúrufræðingurinn 81(2) bls. 69-81.
12. Michael Marden Effectiveness of reforestation in erosion mitigation and implications for future sediment yields, East Coast catchments, New Zealand: A review. DOI:10.1111/j.1745-7939.2012.01218.x
13. Magnús Þór Einarsson o.fl. 2020. Bændur græða landið 2019: Ársskýrsla
14. Ásrún Elmarsdóttir og Borgþór Magnússon 2006. Gróðurfar. Í Skógvist-Lokaskýrsla bls 10-14
15. Ásrún Elmarsdóttir o.fl. 2011. Áhrif skógræktar á tegundaauðgi. Náttúrufræðingurinn 81(2) bls. 69-81.
16. Arnór Snorrason og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir. 2018. Áhrif fjórföldunar nýskógræktar á Íslandi. Skógræktarritið 2018. 34-45
17. Delfina Andrea Castiglia 2020. The spread of natural regeneration of Pinus contorta in Iceland. Meistararitgerð við Háskólann í Padua, Ítalíu, 74 bls.
18. Joel Charles Owona 2019. Áhrif nýskógræktar á kolefnisbindingu í jarðvegi á Íslandi. Meistararitgerð vð LbhÍ. http://hdl.handle.net/1946/34470
Alls staðar þar sem skógar vaxa á jörðinni mynda þeir tegundarík og fjölbreytt vistkerfi. Frumframleiðsla í skógum er mikil í samanburði við önnur vistkerfi í sama loftslagi. Þetta ásamt fjölbreytni búsvæða í skógum er undirstaða mikillar líffjölbreytni*, hvort sem er í jarðvegi, rótakerfi trjánna, skógarbotninum, trjábolum eða trjákrónum. Allir hafa einhverja hugmynd um þá gríðarlegu líffjölbreytni sem finnst í skógum hitabeltisins. En fjölbreytnin er líka mikil í skógum á svalari svæðum. Meira að segja barrskógar norðursins fá sífellt meiri athygli vegna mikillar líffjölbreytni.
Eitt af því sem einkennir íslenskt lífríki er tegundafæð. Hún stafar af fjarlægð landsins frá tegundaríkari svæðum, sem hefur hindrað margar lífverur í að berast hingað eftir síðasta jökulskeið. Þegar menn námu hér land fyrir rúmum 1100 árum gerðist þrennt:
Á flestum þeim svæðum á Íslandi sem áður óx skógur og kjarr, er núna mólendi eða enn rýrari gróðurlendi og auðnir. Lífríki skóganna er horfið af þeim svæðum, þótt einstaka tegundir séu enn til staðar, eins og sumar lyngtegundir eða einir. Í staðinn hafa tegundir sem áður voru utan skóga haslað sér völl.
Í mólendi er gróðurinn gjarnan smávaxinn, beitarþolinn og ljóselskur. Á meðan beit eða næringarskortur heldur gróðrinum í þessu ástandi geta margar tegundir þrifist á hverjum fermetra lands. Þessi fíngerða mósaík er iðulega túlkuð sem mælikvarði á mikla líffjölbreytni, þótt í rauninni séu mólendi og auðnir birtingarmyndir hruninna vistkerfa.
Lög um náttúruvernd númer 60/2013 skilgreina líffræðilega fjölbreytni á þessa leið: „Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.“ Mikill breytileiki vísar þá m.a. til fjölda tegunda af ólíkum gerðum, plantna, dýra, sveppa o.s.frv., mikinn erfðabreytileika innan tegunda og breytileika í umhverfi og búsvæðum lífvera (Swingland 2001). Eitt af markmiðum nýskógræktar er að skapa fjölbreytt skógavistkerfi. Í ungskógum skapast fljótlega umhverfisaðstæður og margs konar búsvæði lífvera sem eru viðbót við lífríki beitilanda og þannig eflist líffjölbreytni svæða.
Fyrir rúmri öld var fyrst ráðist í að bjarga síðustu leifunum birkiskóga og síðan þá hefur verið unnið að útbreiðslu skóga hérlendis og uppbyggingu skógavistkerfa og -auðlinda. Þegar skógur vex upp á skóglausu landi hverfa ljóselsku berangurstegundirnar smám saman. Það ræðst síðan af framboði skógarbotnsgróðurs hver verður áframhaldandi framvinda í uppvaxandi skógi. Víðast hvar gerist þetta hægt vegna þess að skógargróðurinn er löngu útdauður á stórum svæðum og mögulegar dreifingarleiðir mjög langar. Engu að síður bætist sífellt við líffjölbreytni uppvaxandi skóga enda er þar athvarf skógarfugla, fléttna, sveppa, gerla og fleiri lífvera.
Íslenskir skógar geyma mikla líffjölbreytni óháð samsetningu trjátegunda og óháð uppruna þeirra. Þótt fleiri skordýrategundir og aðrar fylgitegundir finnist á birki en þeim trjátegundum sem hafa verið skamman tíma í landinu, hafa nýjar trjátegundir m.a. veitt áhugaverðum nýliðum í fuglafánunni möguleika á að nema land.
...
Swingland 2001. Biodiversity, definition of. Bls. 377-391 Í: Encyclopedia of Biodiversity, Volume 1 Ed: S. A. Levin, Academic Press. https://web.archive.org/web/20170809075210id_/http://academic.uprm.edu/~jchinea/cursos/ecolplt/swingland2001.pdf