Gögn um grunnstöðu eru aðeins skoðuð við staðfestingu verkefna.
Aðeins er gerð grein fyrir grunnstöðu við staðfestingu verkefnis.
Grunnstaða er spá um þann kolefnisbúskap sem vænta mætti að yrði á viðkomandi svæði á verkefnistímanum, ef ekki væri ráðist þar í kolefnisverkefni (t.d. nýskógrækt). Þetta er það viðmiðunarástand sem meta má áhrif verkefnisins út frá.
Þegar kolefnisverkefni eru skipulögð á landi sem nýtt hefur verið til beitar eða á ræktarlandi verður grunnstaðan gjarnan „engin breyting á kolefnisforða á tímabilinu“. Ólíklegt er að kolefnisforði myndi aukast á slíkum svæðum við óbreytt ástand. Verkefnum er ekki heimilt að telja sér til tekna mögulega minnkun losunar sem kann að hljótast af því að fyrri landnýtingu er hætt. Hins vegar er vert að ganga úr skugga um hvort umtalsverð kolefnisbinding kynni að hafa orðið í grunnstöðunni ef ekki hefði komið til kolefnisverkefnis (sjá neðar).
Í kröfusettinu Skógarkolefni er gert ráð fyrir því að grunnstaða sé metin af varfærni. Í því felst að losun gróðurhúsalofttegunda vegna fyrri landnýtingar (t.d. vegna búfjár, áburðarnotkunar eða vélanotkunar) er ekki tekin með í reikninginn við mat á grunnstöðu.
Eftirfarandi atriði skulu höfð í huga við mat á kolefnisforða í grunnstöðunni:
Til sannindamerkis um ástand gróðurs og jarðvegs áður en nýskógrækt hefst má vísa til hvers kyns landupplýsingagagna, korta, ljósmynda, fjarkönnunargagna eða gagna úr vettvangskönnunum þannig að unnt sé að meta kolefnisforða á svæði í upphafi verkefnis (sjá einnig töflu um kolefnisinnihald jarðvegs).
Í Skógarkolefnisreikni er land einungis flokkað í þrjár landgerðir og verður hver og einn notandi að meta sjálfur hvernig landið sem hann er að skoða skiptist í þessar landgerðir. Landgerðaflokkunin tekur mið af landgerðum í nýskógrækt þar sem munur er á mati á jafnaðarbindingu og losun.
Ef líklegt er að breytingar á grunnstöðu verði umtalsverðar (þ.e. ≥ 5% af kolefnisbindingu verkefnisins á verkefnistímanum) skal af hálfu verkefnisins reikna út hvernig kolefnisforði á staðnum hefði breyst á samningstímanum ef ekki hefði komið til verkefnisins (samanburður á sviðsmyndunum „grunnstöðu“ og „óbreyttu ástandi“). Sú varúð sem fólgin er í mati á grunnstöðunni felst í því að aðeins er tekið tillit til bindingar en ekki losunar. Þetta tryggir að uppgefin nettókolefnisbinding (binding verkefna að frádreginni grunnstöðu) verður aldrei meiri en raunveruleg binding vistkerfisins.
Ef breytingin á kolefnisforða er óveruleg (þ.e. < 5% af kolefnisbindingu verkefnisins á verkefnistímanum) má gera ráð fyrir að grunnstaðan sé „engin breyting á kolefnisforða á verkefnistímanum“. Skýrt skal þó taka fram í verkefnislýsingu hvernig komist hefur verið að þessari niðurstöðu.
Grunnstaða í mismunandi landgerðum
Með hugtakinu grunnstöðu er átt við hver þróun kolefnisforða landsins yrði ef ekki kæmi til skógræktar. Spurningar um upphafsstöðu kolefnisforða eru tæknilegs eðlis og þeim er hægt að svara með mælingum á jarðvegssýnum og gróðri. Þar með verða til upplýsingar um stöðuna á tilteknum tíma sem síðan er hægt að bera saman við stöðuna einhvern tíma seinna.
Mikilvægari fyrir vottun eru þó spár um þróun kolefnisforðans. Sé forðinn líklegur til að stækka án skógræktar gæti þurft að draga þá væntu stækkun frá þeirri bindingu sem verður vegna vaxtar skógarins. Sé forðinn aftur á móti líklegur til að standa í stað eða minnka án tilkomu skógræktar má rekja alla kolefnisbindingu sem mælist á svæðinu til skógræktar.
Niðurbrot lífrænna efnasambanda á sér ávallt stað í jarðvegi og við það losnar CO2 út í andrúmsloftið með „útöndun“. Plöntur bæta lífrænum kolefnissamböndum í jarðveg, einkum með því að rætur þeirra vaxa og deyja en einnig við niðurbrot feyru (sinu, laufa o.þ.h.) með „innöndun“. Grunnstaða svæðis m.t.t. kolefnisbúskapar áður en gróðursett er til skógar mótast af þessum ferlum og ríkjandi landnotkun, einkum beit búfjár. Einnig mótast hún af þeirri framtíðarlandnotkun sem er líkleg ef ekki verður ráðist í skógrækt á viðkomandi svæði. Miklar mælingar liggja fyrir um kolefnisbúskap skógar, en tiltölulega fáar mælingar á skóglausu landi, og niðurstöður þeirra eru mjög misjafnar. Mælingar á kolefnisflæði vistkerfa eru líka dýrar í framkvæmd. Því er að svo stöddu ekki hægt að gefa upp meðaltalstölur um grunnstöðu kolefnisbúskapar mismunandi landgerða fyrir gróðursetningu til skógar, aðeins líkur á jákvæðu eða neikvæðu ástandi.
Í grónu landi friðuðu fyrir beit má ætla að lífmassabreytingar gróðurs séu hægfara, oft engar á landi sem friðað hefur verið lengi, en frekar til aukningar lífmassa á landi sem er nýlega friðað. Vöxtur plantna og niðurbrot kolefnissambanda helst nokkurn veginn í hendur. Ætla má að kolefnisbúskapur slíkra svæða sé hvorki teljandi jákvæður (aukning kolefnisforða í gróðri og jarðvegi, innöndun>útöndun) né neikvæður (minnkun kolefnisforða, útöndun>innöndun). Grunnstaða er því ætluð hlutlaus (núll) m.t.t. losunar CO2. Ef líklegt er talið að landnotkun breytist ekki í framtíðinni verða gróðurbreytingar áfram hægfara. Þrátt fyrir friðun er ólíklegt að birki nemi land að teljandi marki vegna þéttrar gróðurhulu. Því helst hlutlaus staða lengi. Ræktun skógar á slíku landi eykur kolefnisforðann sem nemur vexti skógarins (bæði ofan- og neðanjarðar). Í skugga trjánna getur kolefnisforði svarðlagsins minnkað samanborið við gróður á skóglausu landi, en vöxtur trjánna vegur á móti því og miklu meira en það.
Í beitilandi má ætla að kolefnisjöfnuður sé að jafnaði nokkru neikvæðari en á friðuðu landi vegna þess lífmassa sem beitin tekur af svæðinu. Eftir beitarálagi má því ætla að grunnstaðan sé lítið eitt neikvæð (útöndun>innöndun) og kolefnisforði fari rýrnandi, þó ekki þurfi það að vera mikið á ári hverju. Grunnstaðan er því hlutlaus til neikvæð m.t.t. losunar CO2 og verður það áfram ef engar breytingar verða á landnotkun. Ræktun skógar á slíku landi eykur kolefnisforðann sem nemur vexti skógarins (bæði ofan- og neðanjarðar) og vegna nauðsynlegrar friðunar fyrir beit snýst rýrnun kolefnisforðans einnig við, þar sem lífmassatap af svæðinu vegna beitar er úr sögunni. Ágóði er því líklegur til að vera meiri en sem nemur vexti skógarins.
Rofið land er misjafnt en hefur það sammerkt að hafa ósamfellda gróðurhulu. Í moldarmiklum melum getur verið nokkuð um lífræn efnasambönd í jarðveginum en á söndum og eyrum er það mjög lítið. Gróðurhulan nægir ekki til að bæta teljandi magni kolefnis í jarðveginn og því rýrnar jarðvegsforðinn oftast (útöndun>innöndun). Þó er forðinn stundum svo lítill fyrir að rýrnunin er einnig lítil sem engin. Oft er virkt jarðvegsrof á slíkum svæðum og við það rýrnar kolefnisforðinn enn frekar. Óbreytt landnotkun leiðir sjaldnast til batnandi ástands en oft til versnandi ástands. Ræktun skógar á slíku landi eykur kolefnisforðann sem nemur vexti skógarins (bæði ofan- og neðanjarðar). Gróðurhula þéttist með tímanum og við það snýst rýrnun kolefnisforðans í jarðvegi við. Þá bætist kolefnisforði undirgróðurs og feyru við kerfið. Ágóði er því mjög líklegur til að vera meiri en sem nemur vexti skógarins, í mörgum tilvikum umtalsvert meiri.
Kolefnisinnihald íslenskra jarðvegsgerða (tafla)
Tafla 1. Kolefnisinnihald íslenskra jarðvegsgerða miðað við hlutfall kolefnis í heildarrúmmáli fastra jarðvegsefna í efstu 15-35 cm jarðvegsins.
Votlendisjarðvegur |
Þurrlendisjarðvegur |
---|---|
Mójörð >20% C |
Brúnjörð <12% C – vel gróið land |
Svartjörð 12%-20% C |
Mela-, malar-, sand- og vikurjörð <1,5% C – illa gróið land |
Votjörð <12% C |
|
Sjá nánari upplýsingar í grein Ólafs Arnalds og Hlyns Óskarssonar (2009) [1]
Kolefnisinnihald íslensks jarðvegs er mjög breytilegt. Mest kolefni (C) geymir jarðvegur mýranna, en þar hafa lítt rotnaðar gróðurleifar náð að safnast upp í þúsundir ára. Í mýrum sem eru fjærst gosbeltinu, þar sem áfoks gosefna gætir hvað minnst, er hlutfall kolefnis í jarðveginum hæst. Þar flokkast jarðvegurinn sem mójörð sem geymir meira en 20% C1. Nær áfokssvæðum gosbeltisins er hlutfall kolefnis í votlendisjarðvegi lægra. Algengt er það sé á bilinu 12%-20% og jarðvegur flokkast sem svartjörð1. Þar sem áfok er einna mest getur votlendisjarðvegur verið leirríkur og gróðurleifar í honum ógreinilegar, og kolefnisinnihald minna en 12% C. Sá jarðvegur flokkast sem votjörð1.
Kolefnisríkasti þurrlendisjarðvegurinn getur einnig verið með allt að 12% kolefnisinnihald1. Þetta er jarðvegur mólendis og skóglendis, og nefnist brúnjörð. Jarðvegur rofins og illa gróins lands er með minna kolefnisinnihald en 1,5%1.
Heildarmagn kolefnis í jarðvegi ræðst af hlutfalli kolefnis í honum og jarðvegsdýptinni. Jarðvegsdýptin er mjög breytileg frá einum stað til annars og ræðst af aldri og myndunarsögu jarðvegsins. Þetta eykur enn á breytileika heildar-kolefnisinnihaldsins. Kolefnishlutfall yfirborðsjarðvegs segir ekki endilega mikið um hvað dýpri jarðvegslög hafa að geyma af kolefni. Að jafnaði minnkar kolefnisinnihaldið með aukinni jarðvegsdýpt, en sums staðar getur verið töluvert kolefni í leifum eldri jarðvegs sem hefur grafist undir yngri jarðvegi.